Færsluflokkur: Bloggar
20.12.2010 | 01:42
Af skandinavískum bössum, spænskum tenórum og ítölskum sjálfsölum.
Í stuttu máli lá leið mín niður í Toscanahérað til að syngja tvær sýningar af Brottnáminu eftir meistara Mozart. Ég flaug að heiman á föstudaginn og hafði ákveðið að skipta um vél í London. Sýningarnar voru síðan á laugardaginn og sunnudaginn (áðan). Flugið til London gekk vel og ég hafði góða 4 tíma til að innrita mig á vélina áfram niður til Pisa. Þegar ég, tveimur tímum fyrir brottför lít á ljósatöfluna sé ég hvernig 6 flugum í einni hendingu er aflýst, þ.á.m. mínu flugi. Auðvitað. Ég greip í handlegginn á ungum starfsmanni flugvallarins sem fyrir hendingu stóð við hlið mér, horfði djúpt í dökkbrún augu hans og sagðist "verða" að komast til Ítalíu sem fyrst, þar sem ég væri ótrúlega merkilegur óperusöngvari sem ætti sýningu næsta dag. 5 mínútum síðar var ég kominn með flug til Mílanó og hafði þar verið tekinn fram fyrir 48 sem voru á biðlista. Eftir vopnaleit sá ég að þeim flugum sem aflýst var fjölgaði jafnt og þétt. Mitt flug var ennþá á áætlum. Fjórum tímum síðar var flugið mitt líka ennþá á áætlun samkvæmt ljósaskiltinu en þessi risaskjár í Terminal 5 á Heathrow mældist með óvenjumikið áhorf þennan daginn. Þetta var skrítin áætlun þvi tveir tímar voru liðnir síðan vélin átti að fara í loftið. Annað lærði ég, þar sem ég beið eftir fluginu. Nú veit ég til hvers þessi "Prayers rooms" eða bænahús eru á öllum stóru flugvöllunum. Þau eru fyrir þreytta ferðalanga sem fá engin svör frá flugfélaginu sínu um hvenær eða hvort þeir komist á leiðarenda. "Þegar vonin ein er eftir" leita sennilega margir til æðri máttarvalda og leggjast á bæn.
Þótt ótrúlegt megi virðast þá hafðist þetta flug mitt um síðir án trúariðkunar. Við vorum kölluð út í vél þar sem síðan var beðið í heila 5 klukkutíma eftir afísingu; allir í sætaröð 27 eru nánir vinir mínir í dag. Flugið tók tvo tíma og við lentum á Malpensa flugvelli í Mílanó rúmlega 2 að nóttu til.
Umbinn minn hafði bókað hótel fyrir mig við lestarstöðina í Mílanó en allar lestar og rútur voru hættar að ganga niður í bæ svo ég ákvað að reyna að fá gistingu á einu af hótelunum í nágrenni flugvallarins. Þau voru auðvitað öll uppbókuð því í Mílanó höfðu fallið 4 cm af snjó sem nægði til þess að allt hafði farið úr skorðum. Ég hljóp því í hvelli að leigubílaplaninu. Þar voru engir leigubílar en á annað hundrað manns að bíða. Nú birtust tveir bílar og annar þeirra stoppaði í nágrenni við mig. Ég ákvað að vera svolítið ákveðinn og spurði hvort einhver vildi ekki fara með mér í miðbæ Mílanó. Tveir ferðamenn stukku út úr röðinni og við deildum með okkur þeim 16 þúsund krónum sem farið kostaði. Það borguðum við með glöðu geði enda vorum við fegin að vera á lífi eftir að hálftíma akstur á 150 km hraða í ísingu. Annar samferðamaðurinn, kvenkyns þýskur svæðanuddari, þakkaði mér sérstaklega fyrir að hafa tekið af skarið og kallað á bílinn. Vildi hún meina að enginn hefði þorað að mótmæla mér þó 100 manns væru á undan í biðröðinni. Svo ákveðin og valdmannsleg hefði rödd mín hljómað. Á hótelinu stökk ég beint í rúmið og svaf eins og barn til næsta dags.
Daginn eftir hringdi ég í umbann sem hafði mestar áhyggjur af því að ég væri orðinn of þreyttur til að geta sungið af viti. Ég tjáði henni það að ég væri ekki spænskur tenór heldur skandinavískur bassasöngvari og léti ekki smáræði sem þetta slá mig út af laginu. Af hlátri hennar að dæma vissi ég að hún tók svarið gott og gilt.
Lestarferðalag frá Mílanó til Pisa tekur 4 klst. Ég var mættur klukkan 11 til að kaupa mér miða. Í fyrstu var uppselt í allar lestar en svo reyndi ég bara aftur við sjálfsalann og fékk þá miða. Ítalskir sjálfsalar eru greinilega breiskir. Ferðalagið gekk vel og ég var kominn til Pisa klukkan 3, fjórum tímum fyrir sýningu. Í leikhúsinu frétti ég að lestarsamgöngur hefðu lamast eftir hádegið. Þarna slapp ég aftur fyrir horn eins og í London deginum áður.
Í kvöld var síðan seinni sýningin og eftir hana átti ég flug til London og svo áfram heim í fyrramálið. Þar sem allt er nú í lamasessi á Englandi ákvað ég að finna aðra leið heim og tókst að finna ódýrt flug frá Mílanó til Kaupmannahafnar á morgun. Síðan breyttu Icelandair fluginu mínu frá London í Kaupmannahafnarflug; sennilegast fegnir að losna við einn farþega úr jólabiðhjörðinni á Bretlandi. Ég fékk síðan bílfar eftir sýningu með samasöngvara mínum sem býr í Mílanó og var kominn upp á hótel fyrir miðnætti.
Ef Guð og lukkan eru með mér í liði þá er ég kominn til Keflavíkurflugvallar annað kvöld klukkan 22:20.
Ef einhver spyr mig hvert ég hafi farið til að syngja í þetta skiptið get ég með góðri samvisku svarað að ég hafi mestmegnis verið í Mílanó. Það að ég hafi ekki sungið á Scala þarf bara ekkert að koma fram. Annað eins hefur nú gerst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2010 | 22:44
Þroskasaga bragðlauka
Ef skýringin sem ég nefndi í upphafi er tekin trúanleg má draga þá ályktun að bragðlaukarnir séu nægjusamari í æsku frekar en að eigendur þeirra sé vandlátir. Eftir því sem við eldumst þurfum við einfaldlega sterkara og meira bragð til að vera ánægð með það sem við setjum upp í okkur. Þetta er alla vega mín reynsla. Reyndar þykir mér, þótti mér og mun alltaf þykja gott að borða sætindi. Það ætlar bara ekki að eldast af mér. Ég var t.a.m. ekki í neinum vandræðum með að snara í mig troðfullum poka af M&M kúlum í bíó í gærkvöldi. Áður en myndin hófst ákvað ég að sleppa nammi og gosi enda stutt liðið frá kvöldmat. Þegar síðan komið var að hléi lá beinast við að fara í röðina við sjoppuna og kaupa nokkarar bragðgóðar kaloríur. Reyndar sleppti ég gosinu í þetta skiptið svona til að friða samviskuna.
Ég settist í miðjan salinn, miðaldra karlmaður, einn á ferð og byrjaði að gæða mér á M&M sem fyllt var með hnetusmjöri. Fyrir aftan mig sátu tveir menntaskóladrengir og þeir voru sammála um að það væri ósköp lítið að gerast í þessari blessuðu bíómynd. Ég var hjartanlega ósammála. Mér fannst myndin skemmtileg og sko alveg nóg að gerast. Að auki var alls ekki fyrirsjáanlegt hvernig söguþráðurinn myndi þróast. Ég þurfti ekki meiri hasar og læti til að skemmta mér vel. Þarna var ég greinilega nægjusamari en ungu herrarnir og þar með var jafnvægi komið á milli kynslóða en eins og áður sagði hallar nokkuð á okkur eldra fólkið þegar kemur að bragðlaukunum.
Sennilegast er nú skýringin á þessu mun einfaldari og hefur eitthvað með þroska að gera en allt er þetta nú samt líffræði, efnafræði og stundum líka eðlisfræði.
Myndinni lauk um síðir og ég sat eftir sáttur og saddur, miðaldra karlmaður, einn á ferð. Salurinn stóð upp sem einn maður (fyrir utan mig) og á skipulagðan og hraðvirkan hátt, en þó ekki æsingslegan, yfirgáfu ca. 200 bíógestir sal 5 í Smárabíó á 1-2 mínútum. Ég sat eftir, nægjusamur og glaður og ákvað að ganga síðastur út, svona til að undirstrika að ég sé búinn að fara oft í bíó á meginlandi Evrópu þar sem fólk er ekkert að flýta sér út eftir kvikmyndasýningar. Að lokum stóð ég þó á fætur og mér leið eins og skipstjóra sem síðastur yfirgefur sökkvandi skip eftir óvenjuhraða og velheppnaða björgunarrýmingu í bátana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2010 | 19:16
Gulrótarkökusneiðarhugleiðing
Ég pantaði Kaffi-Latte á einum af þekktari kaffihúsum borgarinnar þar sem veggir eru skreyttir myndum af hamingjusömum kaffitilreiðsluliðum sem mörg hver höfðu fengið fyrstu verðlaun fyrir að "hella upp á". Allt í einu rak ég augun í girnilega sneið af gulrótartertu eða frekar gulrótarskúffuköku en sneiðarnar voru ferhyrndar og hvergi bólaði á beygjulegri kökurönd meðal sneiðanna. "Hvað kostar gulrótarkakan?", spurði ég. "550 krónur", var svarið. "Fyrir sneiðina?", spurði ég en áttaði mig um leið á því að spurningin var óþörf og sennilegast hallærisleg. "Já!", svaraði stúlkan eftir smá hik og hún horfði rannsakandi á mig. "Já, nei takk!", sagði ég og uppskar annað hik og aðra rannsókn.
Var þetta sanngjarnt verð? Nú reyndi á stærðfræðikunnáttu mína og flatarmálsreikning. Hver sneið virtist vera 7-8 cm á lengd og 5-7 cm á breidd. Þetta þýðir að það eru u.þ.b. 200 sneiðar í fermetranum af gulrótarköku. 200 sneiðar x 550 kr gera 110.000 kr. Það er þokkalegt fermetraverð!
Af þessu hlýt ég að draga þá ályktun að jafn fagmannlega sé staðið að gerð gulrótarkökunnar og kaffisins góða. Gulræturnar eru örugglega sérvaldar og hver veit nema sérvaldar lífrænt ræktaðar kanínur hjálpi til við valið. Deigið er sennilegast hnoðað eða hrært við kjöraðstæður undir ströngu eftirliti og hráefnin valin af kostgæfni. Rándýrir japanskir kökuhnífar eru að öllum líkindum notaðir við að skera skúffukökuna í sneiðar og er kakan örugglega aldrei meira en dagsgömul.
Næst þegar ég lít við hjá hótel mömmu fæ ég sennilegast eitthvert kaffisull sem búið er til úr baununum sem ekki voru valdar og hver veit nema ég finni sneið af ójafnt skorinni hjónabandsælu á kökudiski. Hver veit? Ég er alla vega kominn með vatn í munninn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2010 | 18:24
Hrakfarir á heimleið
Ég sat sallarólegur á veitingastað í Alpabænum Trento þegar ósköpin dundu yfir. Sýningunni var nýlokið og ég var bara nokkuð sáttur. Áhorfendur höfðu fagnað mér vel og landar mínir sem sátu skælbrosandi á móti mér hrósuðu mér í hástert. Skyndilega fann ég léttan titring á vinstra lærinu. Nýi rándýri farsíminn minn sem aðeins var dagsgamall kallaði á athygli mína; ég var að fá skilaboð. Skyldi það vera unnustan, hugsaði ég brosandi. Var hún að skjóta rafrænum ástarörvum yfir Alpana? Það tók mig nokkrar sekúndur að átta mig á því að sendandinn átti ekkert skylt við þingeyska mey heldur voru þarna á ferðinni sjálvirk skilaboð frá flugfélaginu Air France. Brosið þurrkaðist hægt en örugglega af andliti mínu, sem bar ennþá merki kvennabúrsvarðarins Osmin eftir sýningu kvöldins og má segja að ég hafi breyst í Osmin aftur við lesturinn. Mér var tjáð að flugi mínu frá Verona morguninn eftir hefði verið aflýst og ég ætti bókað flug seinna um daginn. Bara sísona.
Ég var búinn að dunda mér í marga klukkutíma við að finna gáfulegustu (og ódýrustu) heimleiðina eftir þessa Ítalíudvöl. Planið var að fara með kvöldlest til Verona (klukkutími), fljúga til Parísar eldsnemma næsta dags og svo áfram til Íslands seinna í framhaldi af því. Ég þurfti að kaupa mér 2 aðskilda flugmiða þar sem næstumþvíeinokunarflugfélagið okkar (sem nú er rekið með rosalegum hagnaði) er ekki í miklu samstarfi við önnur flugfélög og því rándýrt að kaupa "langa" miða þar á bæ. Þetta plan mitt var sem sagt hrunið eins og spilaborg þar sem fluginu frá Verona til Parísar hafði verið aflýst. Ég reyndi í hvelli að hugsa upp eitthvað varaplan. Fara með lest til Parísar? Nei, til þess var ég of seinn. Taka bílaleigubíl? Léleg færð í Evrópu gerði þann kost ekki vænlegan. Ég ákvað því að taka lestina til Verona og gista þar á hóteli (sem ég hafði pantað) og reyna að skoða hvaða möguleika ég hefði þegar þangað væri komið. Tveimur klukkustunum síðar var ég kominn á hótelið og sat sveittur á internetinu að leita að mögulegum leiðum til að komast heim daginn eftir. Mér til mikillar ánægju sá ég að það var annað flug til Parísar; seinna en mitt upprunalega flug en fyrr en það sem mér hafði verið úthlutað. Ég ákvað því að vakna snemma, fara á flugvöllinn og reyna að fá að komast heim með þessari vél.
Morguninn eftir var ég mættur tímanlega á flugvöllinn í Verona, hóflega bjartsýnn á að kannski yrðu bæði Guð og lukkan með í för og byrjunin lofaði góðu. Ég var settur á "standby" ef eitthvað sæti yrði laust. En um það leiti sem ég fékk síðasta sæti flugsins úthlutað kom í ljós að fluginu myndi seinka um klukkutíma. Nú voru góð ráð afskaplega dýr. Í hvelli hringdi ég í Icelandair og fékk Parísarfluginu mínu heim breytt í Londonaflug heim. Þetta breyting kostaði heilan helling en breytingargjald eitt sér kostar yfir 20.000 kr. auk þess sem ég þurfti að greiða annað eins í farmiðaverðsmismun. Kvöldið áður hafði ég athugað með flug frá París til London og komist að því að British Airways bauð upp á lág verð og margar ferðir. Þegar til Parísar var komið og ég beið eftir töskunni sem geymdi líf mitt síðustu 3 mánuðina sá ég á skjá að vél Icelandair var um það bil að fara í loftið. Af hverju gat henni ekki seinkað? Jæja, þá var bara að drífa sig á söluskrifstofu British Airways.
Þeir sem ferðast mikið vita að CDG-flugvöllurinn í París er gríðarlega stór. Fyrst tók ég rútu sem var korter á leiðinni í rétta byggingu eða Terminal. Síðan hófst mikil ganga fram og aftur þangað til umræddur sölubás var fundinn. Ég bar brosandi upp erindið en í stað svars var mér réttur pappirssnepill. Þar stóð að vegna snjóregns og lélegs skyggnis á Heathrow hefði British Airways ákveðið að fella niður nokkur flug til Parísar. Því voru öll flug sem eftir voru uppbókuð og enga miða að fá. Mér féllust hendur og mig langaði til að fara að skæla. Hvaða stælar voru þetta eiginlega í örlögunum? Ég leit vonleysislegum augum framan í afgreiðslustúlkuna og bað hana um að "redda" mér. Þetta væri bara ekki sanngjarnt. Hún sagðist geta sett mig á "standby" en sá flugmiði myndi kosta tæpar 500 evrur. Þetta var nú öll reddingin. Ég hristi hausinn og leit svo í kringum mig svona eins til að athuga hvar stysta leiðin væri til að ganga hreinlega heim til Íslands. Afgreiðslustúlkan kom mér til hjálpar og benti mér á að kannski væri hægt að fá ódýrara flug hjá Air France.
Klukkutíma síðar og ansi mörgum þúsundköllunum fátækari var ég orðinn hamingjusamur eigandi "one way ticket" París-London á leið í gegnum vopnaleit og vegabréfaskoðun. Fluginu seinkaði síðan um eina klukkustund en ég náði kvöldfluginu frá London til Íslands og var lentur skömmu eftir miðnættið í blanka logni og brakandi frosti.
Ég var hins vegar blessunarlega ekki einn á ferð þennan dag. Endurminningabók Sigurðar Pálssonar, Minnisbók, fylgdi mér um Evrópu þvera og endilanga en Sigurður skrifar þar um námsárin sín í París. Það var ótrúleg tilviljun að þegar við vorum að lenda á Heathrow las ég um ferð Sigurðar heim til Íslands í gegnum London þar sem hann millilenti á sama flugvelli. Ég fletti á þennan kafla í sömu mund og lendingarhjólin snertu flugbrautina. Ótrúlegt.
Bók Sigurðar er frábær. Hún er vel skrifuð og skemmtileg og fær mann líka til að staldra við og hugsa. Hún fékk mig að auki til þess að skrifa nú loksins blogg eftir langt hlé. Hálfnaður á leiðinni heim frá London lokaði ég bókinni með bros á vör, sótti tölvuna og byrjaði að skrifa. Síðan fór ég úr skónum og þar sem ég sat í fremstu röðinni á almenna farrýminu teygði ég tærnar fram í Saga-Class. Þar skyldu þær fá að hafa það gott síðasta spölinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2009 | 22:10
Klárum húsið!
Við sem höfum lifibrauð okkar af klassískum tónlistarflutningi höfum beðið eftir því ansi lengi að hér rísi tónlistarhús sem er landinu samborið. Íslenskt samfélag verður með hverju árinu líkara því ameríska þar sem neysluhyggjan valtar yfir alla menningartilburði. Við höfum núna tækifæri á að breyta áherslum í íslensku samfélagi og væri óskandi að við færum að leita hamingjunnar innra með okkur sjálfum í stað þess að kaupa alltaf flottari bíla og stærri flatskjái. Menntun og öflug menning gefa lífinu gildi og því megum við ekki hætta við fyrsta og eina íslenska tónlistarhúsið.
Tekist á um Tónlistarhús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.1.2009 | 18:12
Byltingin etur börnin sín.....
.... er mér efst í huga þegar ég les bloggfærslur við þessa frétt.
Það kemur mér á óvart hvað fólk getur verið miskunarlaust í því sem það segir og skrifar.
Ég hélt að okkur hefði tekist betur til í uppeldi síðustu 50 árin eða svo.
Mín áskorun: Verum málefnaleg, sama hvaða skoðun við höfum!
Hænuskref í rétta átt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2009 | 23:09
Grænt ljós hjá USA vegna olíuhagsmuna?
Ein af afleiðingum stríðsins er hækkun olíuverðsins. Sumir hagnast þess vegna ansi mikið. Kannski einhverjir tengdir texönskum olíufyrirtækjum líti í aðra átt í stað þess að stoppa Ísraela af?
Maður bara spyr sig.
Olíuverð hækkar um 40% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2009 | 23:31
Vörutalning og útgönguspá
Í dag er hinn víðfrægi vörutalningardagur, 2. janúar. Í gamla daga voru allar verslanir lokaðar á meðan að sveittir verslunarmenn með jólavömb töldu skrúfur og kexpakka í kapp við klukkuna og vonuðu að það væri ekki stór munur á raunverulegum og áætluðum birgðum.
Eitthvað hefur þetta nú breyst í seinni tíð, þar sem tölvur spúa út rafrænum upplýsingum hvenær sem ýtt er á viðeigandi takka. Verslunarmenn eru þ.a.l. ekki eins sveittir en samt ennþá með jólavömb, eins og allir hinir.
Hjá okkur hinum fer sjaldnast einhver talning fram á áramótum. Aldrei lítur maður yfir farinn veg með einhverja tölfræði í huga þó efalaust væru niðurstöðurnar áhugaverðar. Í hvað fóru laun ársins 2008? Hvað voru mörg blöð af salernispappír að meðaltali notuð af hverjum íbúa heimilisins á árinu? Hversu oft fékk ég mér í glas? Hversu mögum síðum dagblaða fletti ég á árinu án þess að reka augun í eitthvað áhugavert? Hversu margir lásu bloggið mitt raunverulega 2008? Viðfangsefni talningarinnar geta líka verið persónuleg? Hversu oft naut ég ásta á því herrans ári tvöþúsundogátta?
Allar þessar niðurstöður verða fyrst áhugaverðar þegar þær eru bornar saman við tölur ársins 2007 nú eða þegar gluggað er í tölur nágrannans. Þá kárnar gamanið - hjá þér eða nágrannanum.Þar sem ég hélt ekki utan um gögn eins og þessi fyrir síðasta ár er ekki úr vegi að skoða niðurstöður fyrstu 2ja daga 2009 og margfalda þær með 183 til að geta sýnt útgönguspá fyrir allt árið.
Samkvæmt því á ég eftir að:
- Sofa að meðaltali 5 klukkutíma á sólarhring allt árið
- Horfa EKKERT á sjónvarpið
- Borða 182 gómsæta fiskrétti
- Drekka EKKERT áfengi og
- fljúga 548 sinnum milli flugvalla í Evrópu
Gleðilega vörutalningu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2008 | 17:41
Nú á að koma okkur aftur í neyslugírinn!
Þetta er alveg eins og síðustu jól. Fréttir af fólki að gera góð kaup. Fyrir ári síðan var verið að selja armbandsúr á einhverjar milljónir og gefið í skin að enginn væri maður með mönnum nema hann gæfi almennilegt úr í jólagjöf.
Auðvitað vonar maður að verslanir fari ekki á hausinn og að verslunarfólk haldi vinnunni. Samt þætti mér gott ef við Íslendingar skrúfuðum aðeins fyrir neyslugírinn og leituðum hamingjunnar fjarri pizzakössum, flatskjám og sófasettum með vasa fyrir bjórdósir.
Lífhrædd á íslenskri útsölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2008 | 09:54
Það eina rétta í kreppunni....
Þetta er svo sannarlega einstakt tækifæri fyrir þjóðina. Það er ekki á hverjum degi sem þessi ótrúlega fallegi lagaflokkur er fluttur, hvað þá heldur að hann sé sviðsettur.
Tónlist Schubert er ekki búin að vera vinsæl síðustu tæplega 200 ár að ástæðulausu. Hún á erindi til okkar á öllum tímum og ekki síst núna þegar fólk er að reyna að hætta neysluhyggjunni og hugsa upp á nýtt hvaða hlutir skipta raunverulega máli.
Ekki skemmir heldur fyrir að frábærir listamenn skuli koma að þessu og það er svo sannarlega kominn tími til að fólk kynnist betur strigabassanum af Suðurnesjum, Jóhanni SMÁRA.
Nú þegar vetur er svo sannarlega skollinn á í íslensku samfélagi er alveg kjörið að setjast niður um stund og njóta vetrarferðar Schuberts.
Sjálfur kemst ég því miður ekki; er ekki á landinu.
Þeim áhugasömustu bendi ég á wikipediuna til að kynna sér viðfangsefnið enn betur: http://en.wikipedia.org/wiki/Winterreise
Góða ferð!
Axlar ábyrgð á kreppunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)