Færsluflokkur: Menning og listir

Dauðasyndirnar sjö við pizzugerð

Sigríður vinkona mín Aðalsteinsdóttir fór fögrum orðum um austurríska Wiener-Schnitzelið á blogginu sínu um daginn. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi þessa útbaraða kálfakjöts; aðrir austurrískir réttir höfða meira til mín eins og t.d. svínasteik með súrkáli og "knödel" eða lifrarbollusúpa. En nóg um það í bili.

Mig langar að helga þessa bloggfærslu skyndibitanum "pizzu". Þessi alheimsréttur, sem ættaður er frá Ítalíu þar sem húsmæður nýttu matarafganga með því að setja þá á flatbrauð og baka þá síðan, hefur fylgt mér öll mín fullorðinsár og mun væntanlega halda því áfram. Minnist ég "pizzuæðis" sem ég og Þorkell vinur minn gengum í gegnun fyrir 20 árum síðan. Ég þóttist maður með mönnum á þessum tíma og var farinn að biðja um sterkustu pizzuna á matseðlinum án þess að vera búinn að opna hann. Síðan átti að krydda pizzuna meira. Þetta gekk í þónokkurn tíma og var matartíminn orðinn að hálfgerðri helgiathöfn þar sem félagarnir svitnuðum og svitnuðum og drukkum auðvitað mikið gos með (þarna er skýringin á vaxtarlaginu loksins komin!). Nú til dags fæ ég mér iðulega bragðmiklar pizzur en hef þó eitthvað slegið af kröfum um krydd og þess háttar.

Dauðasyndirnar sjö við pizzugerð

  1. Sveppir úr niðursuðudós. Þetta er það hræðilegasta sem ég veit. Niðursuðusveppir, þvalir og blautir á pizzuna.
  2. Of þykkur botn. Ég aðhyllist "the italian style" þegar kemur að pizzabotninum. Hann á að vera stökkur og brakandi en ekki eins og ofnbakað fransbrauð.
  3. Lélegur ostur. Það er alveg sama hveru góð áleggin eru á pizzunni þinni. Ef osturinn er lélgur (gamall og bragðlaus) þá er pizzan ekki góð.
  4. Of mikið á pizzuna. Þetta er amerískur siður sem hefur náð til Íslands. Pizzur á maður að borða eins og annan mat, þangað til að maður er ekki lengur svangur en ekki þangað til maður er að springa.
  5. Ofsteikt pepporoni. Marínos Pizza hét pizzustaður á Njálsgötunni forðum daga. Þar var mér sagt að setja ætti pepporníið á pizzuna rétt áður en hún klárar að bakast. Þannig smakkast það best.
  6. Ostur í kanti. Jesús almáttugur. Þetta er nú meiri viðbjóðurinn. Þú skerð í kantinn og osturinn lekur niður á diskinn hjá þér. uuuaaaaaahhhhh!
  7. Of lítið á pizzuna. Þetta kemur stundum fyrir. fjórir sveppir, tvær pepperoni sneiðar og svo hálf ólífa. Restin er brauð, ostur og tómatsósa.

Yndislegustu pizzurnar eru auðvitað þær heimagerðu; fullar af ást og hamingju. Besta pizzan sem ég hef keypt og borðað var ekki ítölsk, þýsk, austurrísk (alls ekki), frönsk, spænsk, belgísk, dönsk eða amerísk heldur íslensk hjá Reykjavík Pizza Company á Laugarveginum (þetta er ekki auglýsing).



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband