Ég er á leiðinni.....

Þegar ég flutti út til náms árið 1994 komu nokkrir pappakassar með flugfrakt frá Keflavík. Þess ber að geta að við vorum fjögur á ferð; ég, eldri börnin mín tvö og mamma þeirra. Nú 13 árum síðar (næstum upp á dag) flyt ég heim til Íslands aftur og sendi dótið með 20 feta gám. Ég taldi nærri 60 pappakassa, auk húsgagna og hillustæðna. Gámurinn var að vísu ekki fullur upp í loft en nóg var sett í hann samt. Þetta eru því u.þ.b. 6 kassar fyrir hvert ár, 1 kassi á tveggja mánaða fresti. Samt er ég búinn að henda miklu og heilan helling skyldi ég auðvitað eftir hjá minni fyrrverandi og dóttur okkar.

Það voru risa skógargeitungar að þvælast úti í dag þegar ég var að hlaða í gáminn. Kannski smygluðu þeir sér inn, koma með til Íslands og styrkja stofninn sem þar er fyrir hendi? Haustið 1994 fengum við mús í einum kassanum en hún hafði stolist í hann á flugvellinum í Vín. Hún var fyrsta (og sennilega eina) spendýrið sem ég kom fyrir kattarnef þar í borg en oft langaði mig að hrista hressilega í Vínarbúum þegar þeir voru farnir að fara virkilega í taugarnar á mér.

Hvað um það. Á morgun skrái ég mig burt úr Þýskalandi og annað kvöld flýg ég heim eftir 13 ára útlegð.

Ætlar enginn að segja: "Vertu velkominn heim....."? 


Útileigumaðurinn Rassmuss in love!

Stundum stendur maður sig að því að hafa misskilið eitthvað frá blautu barnsbeini og halda ennþá í sömu vitleysuna. Þetta á t.d. við hjá mér þegur kemur að sönglagatextum. Í laginu "Ríðum, ríðum..." er talið um útilegumenn en einhvern veginn hélt ég alltaf að um "útileigumenn" væri að ræða. Það væru þá svona menn sem leigðu hvergi, þ.e.a.s. segja úti (ótrúlega gáfulegt). Ég var að nálgast þrítugt þegar ég fattaði þetta. Síðan var lag með Villa Vill sem sagði á einum stað: "Við stelpurnar segi ég ástarljúf orð". Ég stóð lengi í þeirri meiningu að hér væri allt annað á ferðinni, nefnilega enskusletta: "Við stelpurnar segi ég ást are you love". Já svona var maður einfaldur. Þá var ég sem barn (og er enn, enda mikið barn í mér) hrifinn af Halla og Ladda. Þeir sungu lagið um Rassmuss sem ég kunni utanað án þess þó að það meikaði einhvern sens fyrir mér.

Svona er textinn af því lagi.

Ég átti eitt sinn vin,
hverfult var hans kyn
Hann var viðriðinn,
við riði og gin,
ávalt misskilinn

Þú vara, þú vara, þú varadekk!

Við áttum leynifund,
dýrleg var sú stund,
ég missti meðvitund
vaknaði við það,
að Rassmuss kom þar að
og tróð sér í minn stað

Hvað ert þú
að gera í mínum stað?
Ég þoli ei það, það, það.

ég átti aðeins stutta leið hér hjá
og vildi sjá
hver lá þér hjá

Svo komst ég að
hann hafði svikið mig
og farið á bak við þig

Ó Rassmuss minn,
nú er hann vinur þinn
Sólgrímur minn,
vinurinn minn

Þegar Solli sigldi burt
Með þessum búðardurt
dó mín lífsins urt
síðan hef ég spurt
hvers vegna hann nam
land í Amsterdam?

Um hvað er þessi texti eiginlega?


Elvis undir grun!

Þetta á sér auðvitað eðlilega skýringu. Viðkomandi hefur ætlað að skjóta einhver með byssunni og skila henni síðan aftur á safnið. Það er varla hægt að ímynda sér lætin sem orðið hefðu ef í ljós hefði komið að kóngurinn sjálfur væri grunaður um skotáras árið 2007.

Eða var furðulegi þjófurinn á safninu kannski bara Elvis sjálfur?


mbl.is Horfin byssa úr eigu Elvis Presley fannst í klósettskál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slepp ég aftur í sloppinn?

Er þetta ekki eins og þegar Vestmannaeyingar og aðrir sneru aftur til Íslands eftir að hafa verið numdir á brott af Tyrkjum á framanverðri sautjándu öld? Eða kannski frekar eins og þegar handritin komu heim frá Danmörku? Nei auðvitað ekki! Ég er bara að flytja heim eftir 13 ára útlegð. Núna er ég einmitt að setja dótið mitt í kassa og undirbúa flutninginn. Ég er búinn með kassana 20 sem ég keypti í dag og get því svo sem lítið meira gert nema kannski að skrifa eina litla bloggfærslu.

Það er athyglisvert að flytja; pakka dótinu sínu niður, sortera og henda. Maður finnur hluti sem kveikja á minningum sem lágu djúpt í gleymskunnar dal. Flestar eru minningarnar góðar enda segja vísindamenn að heilinn hjálpi okkur í að velja það besta úr fortíðnni. Þetta á víst að gera líf okkar bærilegra og hver kannast ekki við að hafa heyrt að allt hafi nú verið betra í "den".

Ég var að pakka fötum í kassa í morgun og rakst þá á gamla baðsloppinn minn. Hann lítur óvenjuvel út enda lítið notaður (ekki af því ég fari ekki í bað). Ég tek hann aldrei með mér í vinnuferðir og svo bara gleymi ég einfaldlega að nota hann. En það er eitt við þennan slopp sem fylgt hefur mér í gegnum tuttugu ár, 3 sambúðir í þremur löndum og 3 börn. Hann passar ekki á mig lengur!

Ég horfði því brúnaþungur á þessa gömlu flík eftir að hafa smeygt mér í hana í morgun (ég leit út eins og það væri búið að hengja mig út á snúru) og velti því fyrir mér hvort hann hefði kannski hlaupið í þvotti. Nei. Það væri of gott til að vera satt. Staðreyndin er bara sú að ég hef eflst töluvert líkamlega á þessum tveimur áratugum. Það lá því beinast við að setja sloppinn með fötunum sem ég ætla að henda (eða gefa), hjá grænköflóttu náttfötunum og snjóþvegnu gallabuxunum.

Nei, það kemur ekki til mála. Sloppnum verður ekki hent, hann skal passa og það fyrr en síðar. Batnandi bössum er best að lifa og með breyttu lífi kemur breyttur lífsstíll.

Já, nú bíður yndisleg unnustan eftir mér í Vesturbænum og ef ég tek mér tak þá er aldrei að vita nema við pössum bara bæði í sloppinn saman áður en langt um líður!


Draumafrétt morgundagsins!

Mikið væri ég til í að lesa frétt sem þessa á morgun. 

Rólegasta helgin í manna minnum!

Að sögn lögreglunnar í Reykjavík muna elstu löggæslumenn ekki eins rólega nótt og menningarnótt sem nú er liðin. Ölvun var með minnsta móti og stemmingin í miðbænum góð. Aðeins var um þrjú útköll að ræða; gömul kona í Vesturbænum læsti sig út, umferðaljós fóru af á Miklubraut og sænskur ferðamaður hjólaði óvart út í Reykjavíkurtjörn. Þegar líða tók á nóttina sáust engir unglingar á ferli en hópur frá Hrafnistu söng réttarsöngva fyrir framan Höfða.

Á bráðamóttökunni var lítið sem ekkert að gera og að sögn vakthafandi læknis sat starfsfólk mestan tíma fyrir framan anddyri móttökunnar og skiptist á sjúkrasögum og sötraði jurtate.

Hreinsunardeild borgarinnar var ekki ræst út í morgun enda hvergi rusl að finna.

Nei, sennilega verða fréttirnar á morgun á annan veg! 


mbl.is Ljúf stemmning í miðbæ Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir rændir af kortinu sínu án þess að vita nokkurn tímann af því!

Greiðslukortanotkun í útlöndum getur verið varasöm. Ég þekki dæmi þar sem einn starfsbróðir minn borgaði með korti á veitingahúsi á Ítalíu. Þjóninn kom með kortið aftur eftir nokkra stund. Félagi minn var staddur í veiði heima á Íslandi  einhverjum mánuðum síðan þegar kortafyrirtækið hringdi í hann og spurði hvort hann væri staddur á Ítalíu og væri að nota kortið þessa stundina. Það reyndist auðvitið ekki vera en þá höfðu fleiri afrit verið tekin af kortinu í ítalíuferðinni forðum daga og nú átti að reyna að hala inn meiri pening. 

Mínu veski var stolið í Barcelona fyrr á árinu og 250.000 tekin út á 10 mínútum áður en ég náði að loka kortunum. Ég fékk þetta auðvitað til baka en 3 mánuðum síðar.

Mínar ráðleggingar varðandi greiðslukort:

  • ef borgað er með korti, ekki sleppa því úr augnsýn. Á veitingastað er þá hægt að borga þegar gengið er út.
  • notið ekki hraðbanka sem standa einir og ómerktir einhvers staðar.
  • fara alltaf vel yfir kortareikninginnn. Oft kemur svindl inn á reikninginn fyrst eftir nokkra mánuði.
  • reyna að vera með sem fæst kort á sér í útlöndum og læsa restinni í hólfi á hótelherberginu

Fólk með mikla veltu, t.d. gull- og platínumkortshafar eru frekar skotmörk misnotkunar þar sem minni líkur er til þess að þeir taki eftir óeðlilegum færslum.


mbl.is Fangelsi fyrir að svíkja út farmiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frægð fyrir tvær evrur!

Ég brá mér á pizzeríu í kvöld eins og stundum bara gerist. Það væri ekki frásögu færandi ef ekki hefði komið til skemmtilegt samtal við þjóninn þegar ég ætlaði að borga. Hann var búinn að vera sértaklega kurteis við mig allan tímann og kallaði mig m.a. Maestro eins og við söngvarar eigum stundum að venjast á ítölskum veitingahúsum.

Reikningurinn hljóðaði upp á 12 evrur. Ég lagði 15 evrur á borðið og sagði 13. Þar með átti ég að fá 2 evrur til baka. Í stað þess að borga mér horfði þjóninn á mig um stund og spurði síðan hvort ég væri ekki líka kvikmyndaleikari!
"Ha", svaraði ég, "nei ég er víst bara óperusöngvari."
"Lékstu ekki í Hostel 2?", spurði hann síðan.
"Nei", svaraði ég og fór að hlæja. "Ég hef bara aldrei leikið í bíómynd."
"Þá áttu þér tvífara, sem leikur í þessari mynd!".
"Nú jæja", sagði ég og sá fyrir mér einhvern blóðugan og slefandi geðsjúkling með keðjusög um leið og ég horfði spyrjandi á reikninginn sem lá á borðinu. Hvar voru evrurnar mínar tvær?
"Þú lítur líka alveg eins út og yngri bróðir minn!", sagði þjóninn.
"Virkilega?", spurði ég brosandi.
"Já, hann er líka með svona skegg eins og þú. Viltu grappa?"
"Já takk." svaraði ég og hann var rokinn að sækja snafsinn.
"Má ég láta taka mynd af okkur saman?", spurði hann síðan þegar við vorum búinir að renna grappanu niður báðir tveir.
"Ekki málið", svaraði ég. "En ég er ekkert frægur!", svaraði ég og gekk með honum í anddyrið þar sem einhver þjónustustúlkan smellti af okkur mynd. Í þá mund gekk maður framhjá og var hann beðinn um að taka mynd af okkur þremur saman sem hann og gerði.
"Ég er að vinna annan hvern dag!", sagði þessi nýi vinur minn mér síðan.
"Ég er hins vegar á leið burtu frá Vín", svaraði ég og kvaddi þjóninn og evrurnar mínar tvær.

Frægur í 2 mínútur fyrir það að hafa næstum því leikið í Hostel 2. Hvað vill maður meira?


ÁTVR eða ÁTBR?

Þetta vissi ég ekki! Það er hægt að kaupa einn kaldan í Austurstræti og það á búðarverði. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er því orðin að hálfgerðum Áfengis- og tóbaksbar ríkisins. Þetta er athyglisvert en að mínu mati rangt.

Hið háa verð á áfengi og hinar fáu verslanir virðast hingað til ekki hafa hindrað okkur Íslendinga í að ná okkur í bjór eða vín. Sennilega myndi neyslan aukast ef aðgengið yrði gert betra og verðið lækkað en maður veit þó aldrei! Kannski drægist hún saman aftur síðar þegar mesta nýjabrumið væri farið af því að kaupa kippu á 300 kr. í Bónus.

Vandamálið okkar eru neysluvenjurnar. Íslendingar drekka allt of oft áfengi einungis til að "detta í það". Skyldi það einhvern tímann breytast?

Á meðan við ÁTVR sér eitt um áfengissölu á það ekki að breytast í bjórsjoppu eða götubar. Það er mín skoðun.


mbl.is Vill vínbúðina burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðverjar meðvitaðir um umhverfið

Þegar kemur að umhverfismálum þá eru Þjóðverjar ekki með neinn sýndaráhuga. Þeim er virkilega annt um landið sitt og hnöttinn allan. Það hafa þeir sýnt í orði og á borði.

Við Íslendingar getum lært mikið af Þjóðverjum, t.d. á sviði umhverfismála. Þeir bera mikla virðingu náttúrunni og öllu sem að henni snýr. Þeir flokka rusl og reyna að stemma stigu við mengun og orkubruðli.

Og hvar stöndum við? Hver man ekki eftir gamla íslenska máltækinu: "Lengi tekur sjórinn við!"


mbl.is Angela Merkel heimsækir Grænland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Giggs, Raul og Ronaldo farnir heim!

Já, fótboltaáhugamaðurinn og leikmannatreyjusafnarinn Vésteinn, 14 ára gamall og sonur minn er farinn heim til Íslands. Þetta er búinn að vera góður tími hjá okkur feðgunum og löngu kominn tími til. Vésteinn er hættur að líta upp til föður síns, nema kannski þegar hann situr og ég er hættur að kaupa handa honum leikföng og bangsa. Þegar maður er á 15da ári er svo margt að gerast og það er spennandi að fylgjast með því sem foreldri hvernig allt breytist. Ég er rosa montinn af syni mínum. Hann er kurteis og tillitssamur, klár og skemmtilegur.

Við gerðum margt skemmtilegt á meðan að hann var í heimsókn. Fórum í bíó og billard, skoðuðum græjur og tölvur í búðum, borðuðum heima og heiman. Síðan áttum við þrjá daga í Berlín en þar vorum við með litlu systur hans Katarínu sem þar býr með mömmu sinni. Katarína hefur ekki komið til Íslands lengi (það stendur til bóta október) og er íslenskan eitthvað farin að ryðga. Það fór þó vel á með þeim systkinum og áttum við frábæran tíma saman.

vesi-1

"Það er betra að halda sér fast þegar glanni er við stýrið"

 

vesi-2

 

 

 

 

 

 

 

"Áfram nú!"

 

vesi-3

 

 

 

 

 

 

 

 

Vésteinn með Steina, frænda hennar Siggu. Steini býr rétt fyrir utan Vín og heldur með Rapid Wien í fótboltanum.

 

 Ég hlakka til að hitta Vésa aftur þegar ég kem heim eftir 2 vikur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband