Slepp ég aftur í sloppinn?

Er þetta ekki eins og þegar Vestmannaeyingar og aðrir sneru aftur til Íslands eftir að hafa verið numdir á brott af Tyrkjum á framanverðri sautjándu öld? Eða kannski frekar eins og þegar handritin komu heim frá Danmörku? Nei auðvitað ekki! Ég er bara að flytja heim eftir 13 ára útlegð. Núna er ég einmitt að setja dótið mitt í kassa og undirbúa flutninginn. Ég er búinn með kassana 20 sem ég keypti í dag og get því svo sem lítið meira gert nema kannski að skrifa eina litla bloggfærslu.

Það er athyglisvert að flytja; pakka dótinu sínu niður, sortera og henda. Maður finnur hluti sem kveikja á minningum sem lágu djúpt í gleymskunnar dal. Flestar eru minningarnar góðar enda segja vísindamenn að heilinn hjálpi okkur í að velja það besta úr fortíðnni. Þetta á víst að gera líf okkar bærilegra og hver kannast ekki við að hafa heyrt að allt hafi nú verið betra í "den".

Ég var að pakka fötum í kassa í morgun og rakst þá á gamla baðsloppinn minn. Hann lítur óvenjuvel út enda lítið notaður (ekki af því ég fari ekki í bað). Ég tek hann aldrei með mér í vinnuferðir og svo bara gleymi ég einfaldlega að nota hann. En það er eitt við þennan slopp sem fylgt hefur mér í gegnum tuttugu ár, 3 sambúðir í þremur löndum og 3 börn. Hann passar ekki á mig lengur!

Ég horfði því brúnaþungur á þessa gömlu flík eftir að hafa smeygt mér í hana í morgun (ég leit út eins og það væri búið að hengja mig út á snúru) og velti því fyrir mér hvort hann hefði kannski hlaupið í þvotti. Nei. Það væri of gott til að vera satt. Staðreyndin er bara sú að ég hef eflst töluvert líkamlega á þessum tveimur áratugum. Það lá því beinast við að setja sloppinn með fötunum sem ég ætla að henda (eða gefa), hjá grænköflóttu náttfötunum og snjóþvegnu gallabuxunum.

Nei, það kemur ekki til mála. Sloppnum verður ekki hent, hann skal passa og það fyrr en síðar. Batnandi bössum er best að lifa og með breyttu lífi kemur breyttur lífsstíll.

Já, nú bíður yndisleg unnustan eftir mér í Vesturbænum og ef ég tek mér tak þá er aldrei að vita nema við pössum bara bæði í sloppinn saman áður en langt um líður!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband