2.1.2009 | 23:31
Vörutalning og útgönguspá
Í dag er hinn víðfrægi vörutalningardagur, 2. janúar. Í gamla daga voru allar verslanir lokaðar á meðan að sveittir verslunarmenn með jólavömb töldu skrúfur og kexpakka í kapp við klukkuna og vonuðu að það væri ekki stór munur á raunverulegum og áætluðum birgðum.
Eitthvað hefur þetta nú breyst í seinni tíð, þar sem tölvur spúa út rafrænum upplýsingum hvenær sem ýtt er á viðeigandi takka. Verslunarmenn eru þ.a.l. ekki eins sveittir en samt ennþá með jólavömb, eins og allir hinir.
Hjá okkur hinum fer sjaldnast einhver talning fram á áramótum. Aldrei lítur maður yfir farinn veg með einhverja tölfræði í huga þó efalaust væru niðurstöðurnar áhugaverðar. Í hvað fóru laun ársins 2008? Hvað voru mörg blöð af salernispappír að meðaltali notuð af hverjum íbúa heimilisins á árinu? Hversu oft fékk ég mér í glas? Hversu mögum síðum dagblaða fletti ég á árinu án þess að reka augun í eitthvað áhugavert? Hversu margir lásu bloggið mitt raunverulega 2008? Viðfangsefni talningarinnar geta líka verið persónuleg? Hversu oft naut ég ásta á því herrans ári tvöþúsundogátta?
Allar þessar niðurstöður verða fyrst áhugaverðar þegar þær eru bornar saman við tölur ársins 2007 nú eða þegar gluggað er í tölur nágrannans. Þá kárnar gamanið - hjá þér eða nágrannanum.Þar sem ég hélt ekki utan um gögn eins og þessi fyrir síðasta ár er ekki úr vegi að skoða niðurstöður fyrstu 2ja daga 2009 og margfalda þær með 183 til að geta sýnt útgönguspá fyrir allt árið.
Samkvæmt því á ég eftir að:
- Sofa að meðaltali 5 klukkutíma á sólarhring allt árið
- Horfa EKKERT á sjónvarpið
- Borða 182 gómsæta fiskrétti
- Drekka EKKERT áfengi og
- fljúga 548 sinnum milli flugvalla í Evrópu
Gleðilega vörutalningu!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.