Frægð fyrir tvær evrur!

Ég brá mér á pizzeríu í kvöld eins og stundum bara gerist. Það væri ekki frásögu færandi ef ekki hefði komið til skemmtilegt samtal við þjóninn þegar ég ætlaði að borga. Hann var búinn að vera sértaklega kurteis við mig allan tímann og kallaði mig m.a. Maestro eins og við söngvarar eigum stundum að venjast á ítölskum veitingahúsum.

Reikningurinn hljóðaði upp á 12 evrur. Ég lagði 15 evrur á borðið og sagði 13. Þar með átti ég að fá 2 evrur til baka. Í stað þess að borga mér horfði þjóninn á mig um stund og spurði síðan hvort ég væri ekki líka kvikmyndaleikari!
"Ha", svaraði ég, "nei ég er víst bara óperusöngvari."
"Lékstu ekki í Hostel 2?", spurði hann síðan.
"Nei", svaraði ég og fór að hlæja. "Ég hef bara aldrei leikið í bíómynd."
"Þá áttu þér tvífara, sem leikur í þessari mynd!".
"Nú jæja", sagði ég og sá fyrir mér einhvern blóðugan og slefandi geðsjúkling með keðjusög um leið og ég horfði spyrjandi á reikninginn sem lá á borðinu. Hvar voru evrurnar mínar tvær?
"Þú lítur líka alveg eins út og yngri bróðir minn!", sagði þjóninn.
"Virkilega?", spurði ég brosandi.
"Já, hann er líka með svona skegg eins og þú. Viltu grappa?"
"Já takk." svaraði ég og hann var rokinn að sækja snafsinn.
"Má ég láta taka mynd af okkur saman?", spurði hann síðan þegar við vorum búinir að renna grappanu niður báðir tveir.
"Ekki málið", svaraði ég. "En ég er ekkert frægur!", svaraði ég og gekk með honum í anddyrið þar sem einhver þjónustustúlkan smellti af okkur mynd. Í þá mund gekk maður framhjá og var hann beðinn um að taka mynd af okkur þremur saman sem hann og gerði.
"Ég er að vinna annan hvern dag!", sagði þessi nýi vinur minn mér síðan.
"Ég er hins vegar á leið burtu frá Vín", svaraði ég og kvaddi þjóninn og evrurnar mínar tvær.

Frægur í 2 mínútur fyrir það að hafa næstum því leikið í Hostel 2. Hvað vill maður meira?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er alveg spurning með að kíkja á Hostel 2, þó mér sé það þvert um geð að horfa á hryllinginn.

 Frægur eða ekki frægur, ég held að þjóninn sé skotinn í þér.

Lilja (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband