31.7.2007 | 19:48
Erfitt að gera öllum til hæfis!
Mannskepnan deyr ekki úrræðalaus. Fyrst reykingunum var úthýst þá er bara um að gera að taka áfengið með sér. Ég sé reyndar ekki fyrir mér að fólk sem sé að skemmta sér fari með glösin aftur inn þegar ölið er allt.
En það er svo sannarlega erfitt að gera öllum til hæfis í þessu "skemmtistaðareykingamáli". Reykingamenn eru væntanlega æfir eftir að bannið komst á og aðrir gleðjast yfir því að geta skemmt sér með öðrum án þess að fá særindi í hálsinn eða fýlu í fötin. Sjálfur reyki ég ekki en hef samt samúð með þrælum nikótínsins. Margir reykja líka einna helst þegar þeir fá sér í glas og því kemur bannið afar illa við kaunina á þeim. Það er samt hæpið að reykingafólk tali um að það sé verið að gera úr því "annars flokks borgara" með þessu banni. Stór hópur fólks sótti skemmtistaði og bari minna hér áður fyrr einmitt út af reyknum. Þetta fólk kemur núna út á lífið og andar að sér skemmtistaðamenningunni. Þar sem ég er erlendis hef ég reyndar ekki upplifað þennan nýja veruleika en hlakka til að kíkja á næturlífið í haust þegar ég kem heim.
Kannski á ég eftir að sakna þeirrar sjónrænu stemmingar sem sígarettureykurinn skapaði. Því væri samt hægt að redda með reykvélum úr leikhúsgeiranum sem gefa frá sér sauðmeinlausan reyk og gufu í öllum regnbogans litum.
Bannað að taka drykki með sér út af veitingastöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.