Í sérsaumuðum jakkafötum með rauðvín og vindil!

Það styttist óðum í frumsýninguna okkar á Brúðkaupi Fígarós hér í Vín. Langt æfingaferli er þá senn á enda og 7 kvöld í ágúst stöndum við saman á sviðinu í Theater an der Wien, alþjóðlegi söngvarahópurinn sem eytt hefur sumrinu saman hér í háborg menningarinnar. Þetta hefur að mörgu leyti verið mjög sérkennilegt æfingaferli. Við fengum m.a. heila viku í frí vegna þess hve vel á veg vinnan var komin um miðjan júlímánuð. Það kom sér einkar vel fyrir mig enda með heimsókn frá Íslandi sem mig langaði til að sinna svolítið vel. Þessi vika var síðan sú heitasta í manna minnum, eða eins og Örvar fyrrum nágranni minn Kristinsson sagði, þá var þetta sannkallað óveður. Allar hitatölur sem eru nær 40 en 30 gráðum eru ekki til þess fallnar að eitthvað sé annað hægt að gera en að loka sig inni eða hlaupa á milli safna og verslana sem bjóða upp á loftkælingu. Við skötuhjúin skelltum okkur m.a. á 3 söfn og létum aldagamla hollenska, austurríska og ítalska málara stytta okkur stundir. 

En aftur að Brúðkaupi Fígarós. Þrátt fyrir óvænt hlé á miðjum æfingatímanum hefur uppfærslan verið lýjandi. Þannig er að allir söngvararnir þurfa að vera á sviðinu allan timann. Amen. Aumingja stúlkan sem syngur Barbarínu er því á fjölunum í meira en tvo tíma áður en hún fær að þenja raddböndin. Hvað um það, þetta gæti orðið skemmtilegt brúðkaup. Jakkafötin mín bæði eru auðvitað sérsniðin og þar er ekkert til sparað. Jakkinn sem ég er í í öðrum þætti fellur að mér eins og flís í rass en því miður er ég í frakka líka þannig að lítið sést af honum. Milli þess sem ég syng fæ ég síðan að sötra rauðvín (hindberjasafa) og leggja mig í sólstól.

Það verður spennandi að sjá hvernig allt þetta brölt leggst í Vínarbúana á miðvikudaginn. Meira um það síðar.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Tómasson

Það er vonandi að Vínarbúar taki þessari uppfærslu betur heldur en Bayreuth gestir tóku Meistarasöngvurunum þar í vikunni - ef Bartolo er þá ekki gerður að aðalsöguhetjunni og Figaro að aula er alla vegana einhver von fyrir þig - og þó - það gæti verið gaman að sjá Brúðkaupinu snúið á hvolf, hver veit?

Tómas Tómasson, 28.7.2007 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband