24.8.2008 | 00:12
Einn í Eyjaálfu!
Þá er ástralíuvistin mín hálfnuð. Það er auðvitað ekkert skrítið við að vera hinu megin á hnettinum nema bara vitneskjan um það. Það að sólin gangi rangshælis vekur ekki mikla athygli mína né heldur sú staðreynd að hér sé vetur. Hitinn hefur líka verið innan ramma íslensks sumars: 10-18 gráður. Það er einna helst að ég sé í lífshættu þegar ég hleyp yfir götur og gleymi því um stundarsakir að hér er vinstri umferð.
Borgina Melbourne er ég aðeins búinn að skoða. Ég fór t.a.m. í labbitúr í gær um miðborgina þar sem götukerfið er hannað eins og rúðustrikað blað, ekki ólíkt því sem maður á að venjast í Ameríku. Það er líf á götunum. Mikið af ungu fólki á ferðinni og mikið af alls konar afþreyingu. Ég skellti mér á spennumyndina Taken og bíóið minnti mig á íslensk bíó, nema hvað sætin voru númeruð og ekkert hlé var gert á sýningu myndarinnar.
Fyrir mér kemur ástralskt samfélag fyrir eins og blanda af evrópsku, amerísku og asísku. Fólkið hérna er mjög almennilegt en um leið ekki svo yfirborðskennt. Hversdagsneyslan er meiri en á meginlandi Evrópu en minni en í BNA. Síðan er auðvitað miklu meira af asískum mat á boðstólnum en við eigum að venjast.
Þessi blanda heppnast mjög vel og niðurstaðan er fallegur staður, þægilegt samfélag, góður matur og skemmtilegt fólk.
Vinnan hefur líka gengið vel. Konsertarnir okkar eru í Hamer Hall, rúmlega 2000 manna sal í Art Center, sem er samansafn bygginga og stofnana sem snúast um list. Samsöngvararnir eru mjög fínir, hljómsveit og kór sömuleiðis og allt starfsfólk hið almennilegasta.
Enn sem komið er hef ég ekki séð hoppandi kengúrur eða eitraða sporðdreka.....
Athugasemdir
Gaman hjá þér.... kveðja úr rigningunni hér í DK
Eyrún Inga Þórólfsdóttir, 10.9.2008 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.