8.5.2008 | 17:35
Innstökk og útkast
Stundum erum við söngfuglarnir beðnir um að stökkva inn í einhverja sýningu með litlum sem engum fyrirvara. Ég hef nokkrum sinnum "lent" í þessu og er ég ekki frá því að þetta geti bara nokkuð skemmtilegt stundum. Ég hef líka verið heppinn og stundum fengið fleiri samninga í kjölfarið. Hins vegar er alltaf önnur hlið á málinu og það er sú staðreynd að fyrir hvert "innstökk" er líka eitt "útstökk". Veikindi eru algengasta skýringin á því að ráða þarf nýjan söngvara "last minute". En stundum er um "útkast" að ræða, þ.e.a.s. söngvarinn stóðst ekki væntingar þeirra sem réðu hann og honum er einfaldlega bara hent út úr uppfærslunni.
Þegar umboðsskrifstofan hringir og spyr hvort maður geti "stokkið" inn á morgun þarf alltaf að fara vel yfir alla þætti. Í fyrsta lagi verður maður að vera laus, þá að kunna hlutverkið (ennþá), vera í góðu formi og yfir höfuð að nenna að standa í stressinu sem fylgir þessari vinnuleikfimi. Ég var einu sinni beðinn um að taka næstu vél til Vínarborgar og debútera við ríkisóperuna með engum fyrirvara. Þetta var auðvitað freistandi en fyrirvarinn var of stuttur og ég þ.a.a. staddur "úti á landi", fjarri Keflavíkurflugvelli.
Í gær var ég beðinn um að stökkva inn í tvær sýningar í Hamborg. Umboðsskrifstofan fékk mig því miður ekki lausan héðan frá Spáni en ég hefði glaður tekið sénsinn og sungið tvö stykki Brottnám í Norður-Þýskalandi. Þetta er eiginlega alger synd því að það væri alveg hægt að vera án mín í 3 daga; ég hef jú gert þessa uppfærslu áður og þarf ekki allar þessar æfingar. En svona er þetta stundum og einhver annar söngvari fær salt í grautinn um þessa helgi.
Æfingar ganga annars bara vel og þetta er flottir söngvarar sem eru að syngja með mér. Hljómsveitarstjórinn, sem ég ætla ekki að nafngreina, er líka mjög fínn en skiptir sér einum of mikið af uppsetningunni sem hann þekkir reyndar ekki ennþá. Þetta gerir aðstæðurnar erfiðari fyrir okkur söngvarana þar sem erfitt getur reynst að þjóna tveimur herrum í einu. Maður getur eins ímyndað sér tvo lögreglumenn stjórna umferð á sömu gatnamótnunum án þess þó að þeir viti hvor af öðrum.
Hvað um það, það eru margir dagar í frumsýningu og nægur tími til að samræma ólík sjónarmið. Þangað til sigli ég milli skers og báru og vona bara að ég strandi hvorki né sökkvi í óperunnar ólgusjó.
Athugasemdir
Er hægt að fá svona símtal frá "umboðskrifstofunni" og vera beðin um að stökkva inn í nokkra daga til að sinna óperusöngvara. Nei ég bara velti þessu fyrir mér. Eru góð laun í því?;)
Gaman að þú bloggir svona mikið.
Lilja (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 22:55
Sæll, gamli félagi. Gaman að sjá hvað þú ert duglegur að blogga - les þig á hverjum degi. Bið að heilsa Lilji frænku minni og söngkonu. Kveðjur!
Gylfi Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.