Grár ástarþríhyrningur!

Í óperunni sem ég er að fást við núna er svolítill ástarþríhyrningur. Tenórinn Belmonte (ísl. þýðing: Fagrafjall) kemur að frelsa sópranann Konstönsu úr kvennabúri leikarans Bassa Selims. Í þeim uppfærslum sem ég hef sungið af Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart hefur samband þessara peróna alltaf verið efni í miklar umræður. Deilt hefur verið um hvort Konstansa elski Selim (Stokkhólmssyndrómið?) eða hvort hún beri bara virðingu fyrir honum. Oft er líka rætt um það hvort þau hafi sofið saman en á það er nú svo sem ekkert minnst í texta óperunnar. Á æfingu í gær deildu sópraninn og hljómsveitarstjórinn um þetta mál. Hún meinti að Konstansa væri auðvitað ástfanginn af Selim (týpísk kvennaskýring) en hljómsveitarstjórinn sagði að það gæti bara alls ekki verið. Um þetta var rætt í 20 mínútur og eiginlega til einskis því í leikstjórninni (sem er 40 ára gömul) kemur bara ekkert fram um þetta.

Það sem mér fannst skemmtilegast við þessar umræður var að þetta var svona "svart eða hvítt" fyrirbæri, "annað hvort eða". Eins og það væri bara ekki möguleiki að hún bæri tilfinningar til hans sem erfitt væri að skilgreina og setja merkimiða á. Við viljum nefnilega oft einfalda hlutina til að geta sett þá á ákveðinn stað og tekið svo skýra afstöðu til þeirra.

En þetta er bara ekki alltaf svona einfalt. Hér eru nokkur dæmi sem erfitt er að svara með já eða nei.

  • Þykir þeim sem ekki fer með fjölpóst í endurvinnslu ekki vænt um náttúruna?
  • Er sá sem skammar börnin sín harðstjóri?
  • Eru þeir sem ekki gefa pening í þriðjaheimssöfnun eiginhagsmunaseggir?
  • Er sá óstundvís sem kemur of seint í vinnuna af því að hann hjálpaði gamalli konu að skipta um dekk?

Það er ekki alltaf einfalt að koma með afgerandi svar af þeirri einföldu ástæðu að lífið er ekki svo einfalt.

Kannski er hins vegar til einfalt svar við þessari spurningu:

  • Er ég að sóa bæði mínum og þínum tíma með þessum bloggskrifum?



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll,

Finnst ég hafa upplifað þessar skemmtilegu umræður nokkrum sinnum. Er sópraninn nokkuð þýsk? Elska þegar æfingartíminn er notaður svona vel.

Hvernig er annars heilsan?

kv, Gunnar

Gunnar Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband