Ömmublogg

Alger misnotkun á orðinu amma í bloggi gærdagsins og athugasemdum sem fylgdu í kjölfarið kveiktu þá hugmynd hjá mér að skrifa nokkar línur um þennan elskaðasta meðlim hinnar venjulegu fjölskyldu. (Hinu megin á listanum húkir sennilega tengdamamman ein og yfirgefin).

Á skemmtilegum keramikplatta sem börn eru látin gefa ömmum sínum (eftir ómælda ókeypis barnapössun) stendur margt áhugavert. M.a. að ástæðan fyrir því að ömmur hafi svona mikinn tíma fyrir börn sé sú að þær hafi aldrei átt nein börn sjálf. Þrátt fyrir augljós erfðafræðileg vandkvæði er hér mikill sannleikur á ferð. Við ímyndum okkur sjaldnast ömmur okkar sem ungar og tímalitlar mæður í lífsgæðakapphlaupi. Þær eru hins vegar þolinmóðar og skilningsríkar og hafa þannig nærværu að maður hagar sér miklu betur hjá þeim en heima hjá sér. Svo baka þær svo fínar pönnukökur og eiga alltaf ískalda mjólk í ískápnum. Ömmur okkar prjóna líka flottustu lopapeysurnar og kippa sér ekkert upp við það þó að mann vanti nýja peysu annað veifið.

Ég þekki fullt af ömmum og þær eru allar nokkurn vegin svona, held ég. Það er erfitt fyrir mig að sækja upplýsingar í eigin reynslubrunn í þessum efnum. Önnur amma mín bjó öll sín fullorðinsár í Danmörku og hana á ég víst að hafa hitt einu sinni. Hinn amma mín dó þegar ég var lítill pjakkur. Með henni eyddi ég miklum tíma (sem ég man eiginlega ekki eftir), því hún passaði mig þegar foreldrarnir voru að vinna, pabbi í harkinu og mamma að slíta sér út í frystihúsinu. Sú amma mín kenndi mér bænir og innrætti 3ja ára bassasöngvaraefni með snuddu góða siði. Allir sem mig þekkja vita að þar tókst henni einkar vel til. Hún kenndi mér líka að spila einföld spil en var óhrædd við að svindla á mér ef ég var að vinna því þrátt fyrir allt gott gat amma ekki hugsað sér að tapa. Eftir að hún dó hélt ég áfram að spila við hana einhver skipti og þá skipti engu máli lengur hvort okkar vann.

Þrátt fyrir að muna varla eftir henni þá þykir mér vænt um ömmu mína, sem hét Guðrún Lilja og hefði orðið 112 ára á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ömmu okkar hafði ég viljað þekkja líka(þrátt fyrir í mínu tilfelli fær hún forskeytið lang-),
þó ekki væri nema til þess að láta vinna mig í veiðimann
Var einmitt í tilefni dagsins að skoða myndir af undirritaðri sem fermdist á afmælisdag ömmunar fyrir þónokkrum árum síðan og fékk lánaðan allt of stóran upphlut hennar frá Lilju frænku.
Varðandi umræður síðustu færslu (veit ég vel hvað þú átt við þar sem ég þjáist af sama ættarkvilla) mæli ég eindregið með hjólinu og tröppunum (eins og einhver sagði) það hefur minkað mig talsvert í vetur.

Bið að heilsa Liljunni

Margrét Brynjars (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 11:08

2 identicon

Ég er sannfærð um að það standi ekki á neinum "ömmuplanta" að þær svindli á barnabörnunum. Handviss.

Lilja kærasta (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband