Hvað getur orðið mér til minnkunar?

Nú er ég í vanda. Batnandi mönnum er bezt að lifa og eftir stigvaxandi þyngdaraukningu undanfarin 20 ár er kominn tími á viðsnúning. Ég fór í hressilega megrun um tvítugt og náði mér m.a.s. niður í meðalþyngd (stóð stutt) en síðan þá hefur þróunin verið "út á við", með örfáum ómerkilegum undantekningum. Gallsteinakastið sem ég fékk í Japan kom mér síðan á sporið í þetta sinn og á hótelinu sem ég dvaldi þar var hin ágætasta líkamsræktaraðstaða. Ég náði því að taka harkalega heilsufars-u-beyju á Hotel Hilton Tokyo, snúa vörn í sókn í rúmmálsminnkun og hreyfanleika og tókst að "hlaupa" 2 1/2 km á skemmri tíma en kærastan sem þrátt fyrir ungan aldur kallar ekki allt ömmu sína.

Að loknum sex vikum í Japan kom ég heim til Íslands (einni vænni bowlingkúlu léttari). Ég þurfti auðvitað tíma til að snúa sólarhringnum við og á degi 2 fór ég á fætur klukkan 5 og byrjaði að laga til. Klukkan 8 leiddist mér þófið; ég fór í íþróttaskóna, dró fram æpottinn og skellti mér út að hlaupa við glymjandi popp- og diskótónlist æskuáranna. Mér varð auðvitað skítkalt og eftir 20 mínútna skemmtiskokk sneri ég aftur heim og vakti kærustuna.

Daginn eftir var ég örlítið aumur í hnjánum. Ég hringdi í bróður minn sem sennilega kallar bara alls ekki neitt ömmu sína. Hann var að komast að því að hann væri "búinn" með hnén á sér eftir mikla líkamsrækt og ótrúlega ósérhlífni í hálfa öld. Um árið hjólaði hann hringinn og  skaut þar yngri samstarfsmönnum ref fyrir rass. Nú er hins vegar komið að skuldadögum og bráðum verður skurðhnífasettið brýnt.

Ég var aldrei svona ósérhlífinn enda þykir mér mjög vænt um sjálfan mig og því langar mig ekkert að eyðileggja á mér hnén. Bróðir minn benti mér á skokk á malbikinu kæmi alltaf niður á hnjánum, alveg sama hve góða skó maður hefði. Þar að auki væri ég ekki sá léttasti (verð auðvitað aldrei "sá léttasti"). Bezt væri að ganga rösklega, t.d. á bretti og upp halla.

Nú kemur að vanda mínum. Hér á hótelinu á Spáni er bara engin líkamsrækt og það eina sem mér var bent á er eitthvað geðveikt heilsuspa í hálftíma fjarlægð þar sem skiptið kostar 2500 kr. (nema maður sé 4 ára eða yngri). Hvað á ég að gera? Ég er með nokkrar hugmyndir.

  • Setja heilsurækt á ís og hugsa um andlega velferð (t.d. drekka góð vín og borða Tapas)
  • Hafa ekki áhyggjur af hnjánum og fara út að skokka.
  • Ganga upp allar átta hæðir hótelsins og taka svo alltaf lyftuna niður.
  • Skokka berfættur úti á strönd í anda bandarískra sjónvarpsþátta um baðverði, brúnku og blondínur.

Kannski getur einhver hjálpað mér?

Ég gæti auðvitað bankað hjá úthaldsgóða nágranna mínum á 607 og fengið góðar ráðlegginar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri mjög áhugavert að heyra hvað Hr.Richter og (ból-) félagar myndu ráðleggja þér í þessum líkamsræktarmálum! (bara spyrja, ekki gera;-) Svo myndi ég taka andlega pakkann. Ekki spurning!

Kristín hjúkrunar-/söngkona (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 14:49

2 identicon

Heyrðu góði, bráðum fer ég bara að kalla þig ömmu mína ef þú hættir ekki þessum skotum! Ég vil árétta það að þegar ég hljóp 2,5 km forðum daga á Hilton þá var ég ekki í keppni við neinn og stefndi ekkert endilega að því að hlaupa það á skemmri tíma. Ég setti hins vegar markið fyrir bassann sem kallar allt ömmu sína og ekki gat hann hugsað sér að vera minni amma en ég. Því segi ég; Við skulum bara sjá hvað sumarið ber í skauti sér í þessum málum, meðan þú reikar um strendur Spánar í leit að áskorun veit ég alveg að hverju ég stefni, að sigra ömmuna sjálfa á heimavelli í júní!

Þú færð engar ráðleggingar frá mér, (enda ekki besta amman til þess) en gangi þér samt vel og sjáum hvað setur.

1,2,3 Amma.

Lilja kærasta (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 16:09

3 Smámynd: Tómas Tómasson

Ég hef alltaf verið sannfærður um að besta líkamsræktin sé sú sem jarðskjálftaði þig gegnum vegginn milli 606 og 607! Sennilega væri best að borga bara flugmiða - ekki fyrir ömmu þína - og njóta vel og lengi!

Tómas Tómasson, 5.5.2008 kl. 19:38

4 identicon

Fyrst ykkur er tíðrætt um ömmur vil ég benda á að AFI minn hleypur hiklaust upp hæðirnar sex í elliblokkinni sinni. Hann verður níræður á árinu. Rétt eins og hann geturðu talið tröppurnar á meðan þú hleypur og athugað í hvaða tröppu þú mæðist. Hann sagði mér ósáttur frá því um daginn að hann þreyttist nú 7 tröppum fyrr en í hitteðfyrra.

Þitt viðmið verður auðvitað að hlaupa upp hæðirnar átta án þess að mæðast. Þú veðrur klárlega orðinn "minni" maður þegar þér tekst það. Ég er reyndar ekki rétti maðurinn til að ráðleggja mönnum þegar kemur að hnjámeiðslum. En ég er sannfærður um að sandurinn er mýkstur af ofangreindum möguleikum. Þar af leiðandi færðu þannig minnstu höggin á hnén.

Baldur mágur (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 00:29

5 identicon

Leigðu þér hjól og farðu allra ferða hjólandi, og ef mögulegt er farðu þá lengri leiðina og reyndu alltaf að fara aðeins hraðar en þægilegt er.  Svo er bara að treysta á að það sé sturta á hinum enda ferðarinnar eða í það minnsta möguleiki á því að þurka sér og skipta um skyrtu.  Gerir undur skal ég segja þér.... 

Og fer bara alls ekkert illa með hnén.  Eða það held ég!!!  Alla vega ekkert í samanburði við það að skokka.

Kveðja,
Örvar

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband