Verðlagning á klaufaskap!

Eftir tvær heitar nætur á Spáni er ég enn innimatur. Hitinn hefur að visu lækkað en ég er enn með höfuðverk og svo er ég farinn að finna til þegar ég kyngi. Ég fer því sennilega ekki á æfingu í dag, þó ekki væri nema fyrir þær sakir að það væri kvikinislegt að smita samsöngvarana af íslenskri flensu. Söngvarar eru nefnilega alltaf á varðbergi gagnvart pestum og kvefi sem skiljanlegt verður að teljast og það er ekki vinsælt að koma á æfingu og hósta framan í titrandi tenóra og skjálfandi sóprana sem eiga sér ekki neins ills von.

Ég dreif mig samt í morgun á fætur og fór í morgunmat. Þar hitti ég mér til mikillar ánægju ameríska sópransöngkonu sem ég hef nokkrum sinnum sungið með: Susan Anthony. Ég settist á móti Súsönnu en reyndi um leið að halda mér í eins mikilli fjarlægð frá henni eins og hægt var. Við skiptumst á fréttum, slúðri og óperusögum og þegar ég kláraði úr kaffibollanum mínum sagði ég henni frá dýrasta kaffi sem ég hef nokkru sinni drukkið.

Þannig var að í nóvember s.l. kom dóttir mín 5 ára í tvær vikur til Íslands. Ég bæði sótti hana og fór með hana til baka og til þess flaug ég tvisvar fram og til baka til Frankfurt. Ég var bara með handfarangur og þurfti því aðeins að innrita mig töskulausan þegar á ég var lentur. Þegar ég sótti hana var þetta einfalt, ég lenti í Frankfurt og þar beið hún eftir mér við hliðið og við fórum beint í vélina aftur. Tveimur vikum síðar þegar ég skilaði henni aftur þurfti ég að fara með hana alla leið í gegnum tollinn. Vélin var á vel á undan áætlun þannig að þetta gekk mjög vel fyrir sig. Við sóttum töskuna og mamma hennar tók á móti henni eftir það. Ég fór beint í innritun og komst þá að því að ég hefði alveg klukkutíma þangað til ég ætti að mæta við hliðið.

Til að drepa tímann fór ég á smá flakk á flugvellinum; skoðaði föt og ferðatöskur (mikill áhugamaður um ferðatöskur) og loks settist ég á Starbucks og fékk mér Caramel Macchiato fyrir 500 krónur. Á meðan ég sötraði í mestu makindum þennan dísæta karamellukaffidrykk velti ég því fyrir mér hvenær þessi vinsæla kaffihúsakeðja kæmi til Íslands. Ég er viss um að staðurinn myndi slá í gegn þó svo að karamellukaffið mitt kostaði sennilega 1000 krónur í Reyjavík. Í þessum hugsuðu orðum gengur kona fram hjá borðinu mínu sem ég kannaðist við. Eftir smá tíma mundi ég hvaðan ég þekkti hana. Hún vann (og vinnur kannski enn) á innritunarborði Icelandair í Frankfurt og við að hleypa fólki inn í vélarnar við brottför. Mér fannst skrýtið að hún væri á þessu vappi svona stuttu áður en innritun ætti að hefjast. Ég leit á klukkuna og sá að ég hafði nægan tíma en...... þá mundi ég eftir svolitlu sem á ekki að geta gerst. Ég hafði gleymt að breyta úrinu mínu þegar ég lenti! Klukkan var ekki hálf 2 heldur hálf 3.

Þrátt fyrir að hlaupa eins og vitleysingur og ryðjast fremst í allar biðraðir kom allt fyrir ekki. Ég var búinn að missa af vélinni heim. Niðurbrotinn yfir eigin klaufaskap hringdi ég í Icelandair og þeir bókuðu fyrir mig flug í gegnum Kaupmannahöfn seinna um kvöldið.

Þetta var dýr kaffibolli í Frankfurt. Hann kostaði mig 22.499 krónur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Haha. Skemmtileg saga. Þú þarft líklega ekki að bíða í mörg íslensk verðbólguár til að kaupa annan Carmel Macchiato á svipuðu verði, án þess að missa af flugvél.

Annars er tricky að komment ahjá þér. Þú ert með sjálfvirka gestaþraut sem gerir það að verkum að ég þarf stundum nokkrar tilraunir til að geta kommentað. Hver er summan af sjög og sextán?

Baldur (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband