Af volæði og veikindum!

Eftir allt of stutta en þó yndislega heimveru í kjölfar ævintýralegarar Japansferðar liggur leið mín yfir hafið að ströndum Norður-Spánar. Þessi vinnustaður minn næstu 3 1/2 vikuna heitir La Coruna og er á norðvestur odda landsins. Íbúar þessarar 17. stærstu borgar Spánar eru tæplega 250.000 og borgin státar meðal annars af 2000 ára gömlum vita og þekktum og virtum fótboltaklúbbi.

Ég er hingað kominn til að syngja kvennabúrshúsvörðinn Osmin en sýningar mínar í hlutverki þessa einfalda skúrks eru að nálgast 70. Þetta er líka í 3ja sinn sem ég syng þessa uppfærslu en hún er eftir hinn fræga leikstjóra Giorgio Strehler sem lést fyrir nokkrum árum síðan.

Með réttu ætti ég núna að vera á æfingu en þar sem ég ákvað að veikjast heiftarlega á leiðinni verð ég víst að halda mig innan dyra um stundarsakir. Ég fann það i gærmorgun þegar ég lagði í hann að einhver fjandans pest væri að leggjast á mig. Það reyndist því miður rétt og eftir 5 tíma stopp í Lúndúnum tók ég inn hitalækkandi til þess komast þokkalega á leiðarenda. Í gærkveldi þegar pillurnar hættu að virka skall hitinn á mig af miklum þunga og síðan þá hef ég ekki yfirgefið hótelherbergið. Ég er eitthvað skárri í dag en sennilega verð ég líka mestmegnis innandyra á morgun.

Þeir sem vel til mín þekkja vita að í nýafstaðinni Japansferð fékk ég miður skemmtilegt gallsteinakast og get ég ekki neitað því að það rifjast hressilega upp fyrir mér núna þegar ég loka mig inni á hóteli sveittur og illa útlítandi.

En nóg af volæði og aumingjaskap; ég er allavega búinn að skrifa fyrsta bloggið mitt í marga mánuði og stefni að því að vera duglegur að færa inn í þessa opinberu dagbók næstu vikurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vesalings þú. Ömurlegt að hafa engan til að stjana við sig nema "rommservice" sem stendur bara til boða valda klukkutíma, tvisvar á dag! Hvaða rugl?

Við Lilja spiluðum póker við vini áðan. Hún ætti að halda sig við sönginn. Ég vann.

Batakveðjur, Baldur mágur.

Baldur (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 03:32

2 Smámynd: Bjarni Thor Kristinsson

Haha..... það er reyndar "rommservice" allan sólarhringinn því ég er með mínibar en hins vegar er "roomservice" bara tvisavar á sólarhring og ekki um helgar.

Þú ættir að halda þig við íslensku fréttirnar á DV.

Sólarkveðjur.... Bjarni (svili Huldu)

Bjarni Thor Kristinsson, 3.5.2008 kl. 09:12

3 identicon

Sem betur fer er ég ekki að skrifa íslenskar fréttir klukkan hálf fjögur á nóttunni :)

Baldur (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband