13.8.2007 | 22:13
Skoðun öfgasinnaða framsóknarkratans!
Það er alltaf skemmtilegt að lesa skoðanir fólks þegar kemur að varnarmálunum. Þar er ekki til neitt sem heitir miðjumoð. Menn eru á með eða móti Nató, varnarsamstarfi, íslenskum her, vopnaæfingum o.s.frv.
Sem gamall Suðurnesjamaður kynntist ég varnarliðinu örlítið á árum áður en einhvern veginn tóks mér að komast í gegnum lífið án þess að fá einhverja eldheita skoðun á hernum, meðan hann var og hét.
Nú er ég hins vegar búinn að mynda mér skoðun og sem og oft áður minni ég á öfgasinnaðan framskóknarkrata. Hér kemur mín afstaða:
Ég tel að við eigum að taka þátt í Nató samstarfinu. Fyrirkomulagið eins og það er núna er hið besta mál. Árlegar varnaræfingar eru táknrænar en ekki til þess gerðar að hræða "hugsanlegan óvin". Auðvitað er enginn á leiðinni að ráðast inn í landið og sú tilhugsun virðist óhugsandi en þú læsir ekki bara útidyrahurðinni hjá þér þegar að þú heldur að verði brotist inn. Það er líka gott og blessað að gagnrýna BNA en það merkir samt ekki að allir Bandaríkjamenn séu asnar og að allar ríkisstjórnir þeirra hugsi bara um olíu. Við eigum samflot með vestrænum ríkjum þegar kemur að menningu og lífsgildum. Þessar þjóðir kjósa flestar að hafa her, sem er eitthvað sem við hvorki viljum né getum gert. Við getum lagt okkar fram í samstarfinu með því að "vera með". Þannig getum við líka haft áhrif. Við eigum ekki að vera þögular og auðmjúkar undirtyllur einhverra stórvelda en það er líka óþarfi að halda því fram að við séum eitthvað yfir aðra hafnir þegar kemur að alþjóðamálum.
Það að herinn sé farinn er hið besta mál. Vera hans hér var orðinn að tímaskekkju. Ég er hins vegar fylgjandi varnarsamstafinu og því sem því fylgir.
Íslensk stjórnvöld þurfa að ákveða framtíð ratsjárstöðva | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hér er tvennt rangt og eitt skýrt merki um misskilning.
Það fyrra sem er rangt er að við getum ekki haft her. Við erum jafn fær um að hafa her og t.d Malta og Lúxemborg. Lúxemborg er aðili að NATO og leggur til sameiginlegra varna bandalagsins í samræmi við stærð sína. Það er ekkert herlaust ríki í heiminum með efnahagslega burði á við Ísland (og fæst þeirra þó fullkomlega laus við þungvopnaðar varnir).
Hér er þörf fyrir her eins og annarstaðar. Menn uppgötvuðu það árið 1939 að herleysi var ekki raunhæf stefna og reyndu að bæta úr því með skítreddingum. Sem betur fer urðu Bretarnir á undan Þjóðverjum. Árið 1957 héldu menn að það væri í lagi að senda herinn í burtu og það var samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis. Stuttu seinna réðust Rússar inn í Ungverjaland og þá læknuðust menn af slíkum ranghugmyndum.
Út frá hagsmunum Bandaríkjanna séð er ekki mjög mikilvægt að hafa liðsafla hér, það þýðir ekki að hlutirnir líti eins út sé litið á þá frá sjónarhóli Íslendinga.
Fyrr eða síðar munum við líklega stofna her. Í millitíðinni reynum við að uppfylla þær þarfir sem hann myndi þjóna með allskyns illa heppnuðum reddingum á borð við hálf borgaralega ratsjárstofnun, friðargæsluna og samningum við Dani og Norðmenn sem eru í raun ósköp lítils virði og virðast aðallega sprottnir af þeirri ranghugmynd íslenskra stjórnvalda að orrustuþotur séu einhverskonar fljúgandi varðskip. Þetta fyrirkomulag færir okkur ekki trúverðugar lágmarksvarnir og eykur hættuna á því að við lokkum einhvern fjanda hérna uppeftir í öryggistómarúmið, setur okkur í vonda samningstöðu gagnvart Dönum og Norðmönnum varðandi ýmsa hagsmuni á hafinu og gerir okkur síst að æskilegri bandamönnum innan NATO.
Misskilningurinn er sá að NATO sé einhverskonar góðgerðarstofnun sem sér um það að spara ríkum smáþjóðum kostnaðinn af eigin vörnum.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.