Þroskasaga bragðlauka

Fyrir skemmstu var ég fræddur um það að braglaukarnir dofnuðu með aldrinum. Það væri skýringin á því hvers vegna börn og unglingar væru matvönd en fullorðnir síður. Sjálfur borðaði ég ekki kartöflur sem barn ef ég komst einfaldlega hjá því og ostur fannst mér hreinlega ógeðslegur. Það mátti ekki sjást fitutæja á kjöti. Hefði einhver boðið mér hráan fisk liggjandi á klesstum grjónagraut hefði ég farið að gráta. Nú er öldin önnur og fæ ég hreinlega vatn í munninn við tilhugsunina um góðan ost eða ferskt sushi. Ég er m.a.s. farinn að borða kartöflur og finnst þær góðar.
Ef skýringin sem ég nefndi í upphafi er tekin trúanleg má draga þá ályktun að bragðlaukarnir séu nægjusamari í æsku frekar en að eigendur þeirra sé vandlátir. Eftir því sem við eldumst þurfum við einfaldlega sterkara og meira bragð til að vera ánægð með það sem við setjum upp í okkur. Þetta er alla vega mín reynsla. Reyndar þykir mér, þótti mér og mun alltaf þykja gott að borða sætindi. Það ætlar bara ekki að eldast af mér. Ég var t.a.m. ekki í neinum vandræðum með að snara í mig troðfullum poka af M&M kúlum í bíó í gærkvöldi. Áður en myndin hófst ákvað ég að sleppa nammi og gosi enda stutt liðið frá kvöldmat. Þegar síðan komið var að hléi lá beinast við að fara í röðina við sjoppuna og kaupa nokkarar bragðgóðar kaloríur. Reyndar sleppti ég gosinu í þetta skiptið svona til að friða samviskuna.
Ég settist í miðjan salinn, miðaldra karlmaður, einn á ferð og byrjaði að gæða mér á M&M sem fyllt var með hnetusmjöri. Fyrir aftan mig sátu tveir menntaskóladrengir og þeir voru sammála um að það væri ósköp lítið að gerast í þessari blessuðu bíómynd. Ég var hjartanlega ósammála. Mér fannst myndin skemmtileg og sko alveg nóg að gerast. Að auki var alls ekki fyrirsjáanlegt hvernig söguþráðurinn myndi þróast. Ég þurfti ekki meiri hasar og læti til að skemmta mér vel. Þarna var ég greinilega nægjusamari en ungu herrarnir og þar með var jafnvægi komið á milli kynslóða en eins og áður sagði hallar nokkuð á okkur eldra fólkið þegar kemur að bragðlaukunum.
Sennilegast er nú skýringin á þessu mun einfaldari og hefur eitthvað með þroska að gera en allt er þetta nú samt líffræði, efnafræði og stundum líka eðlisfræði.
Myndinni lauk um síðir og ég sat eftir sáttur og saddur, miðaldra karlmaður, einn á ferð. Salurinn stóð upp sem einn maður (fyrir utan mig) og á skipulagðan og hraðvirkan hátt, en þó ekki æsingslegan, yfirgáfu ca. 200 bíógestir sal 5 í Smárabíó á 1-2 mínútum. Ég sat eftir, nægjusamur og glaður og ákvað að ganga síðastur út, svona til að undirstrika að ég sé búinn að fara oft í bíó á meginlandi Evrópu þar sem fólk er ekkert að flýta sér út eftir kvikmyndasýningar. Að lokum stóð ég þó á fætur og mér leið eins og skipstjóra sem síðastur yfirgefur sökkvandi skip eftir óvenjuhraða og velheppnaða björgunarrýmingu í bátana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband