Gulrótarkökusneiðarhugleiðing

Það er ekki svo langt síðan að hægt var að telja kaffhús Reykjavíkur á fingrum annarrar handar. En tímarnir eru breyttir og nú er hægt að fá bragðgóðan og ilmandi kaffisopa á öðruhverju götuhorni í nyrstu höfuðborg heims, víðsfjarri öllum kaffiökrum. Og við erum ekki að tala um neitt sull - ó nei! Sérvaldar bragðmiklar kaffibaunir eru malaðar við fullkomnar aðstæður og fjölbreytileiki bragðsins er orðinn svo mikill að harðsvíraðir vínsmakkarar gætu auðveldlega skipt um áhugamál. Framreiðslan er líka orðin að listgrein. Mjólkurfroðan er áferðarfögur og oft á tíðum mætir manni búlduleitt hjarta eða laufblað þegar horft er ofan í bollann. Dýrðin kostar að vísu bæði tíma og peninga. Það tekur álíka langan tíma að finna til Kaffi-Latte og að baka pizzu-Hawai og við tilreiðsluna myndast mikill hávaði í frussandi mjólkurfroðugerðarvél auk þess sem notuðum kaffikorgi er slegið úr síunni með miklum látum; þetta er sennilega allt nauðsynlegt svo við fáum á tilfinninguna að alvöru kaffi verði nú borið fram. Sopinn er ekki ódýr; allt að 500 kr kostar kaffidrykkurinn sem er í sjálfu sér, miðað við allan undirbúninginn, t.d. við að sérvelja baunirnar (hlýtur að vera mjög tímafrekt að velja baunir í heilan kaffipoka) og svo auðvitað við tilreiðsluna, ekki svo mikið
Ég pantaði Kaffi-Latte á einum af þekktari kaffihúsum borgarinnar þar sem veggir eru skreyttir myndum af hamingjusömum kaffitilreiðsluliðum sem mörg hver höfðu fengið fyrstu verðlaun fyrir að "hella upp á". Allt í einu rak ég augun í girnilega sneið af gulrótartertu eða frekar gulrótarskúffuköku en sneiðarnar voru ferhyrndar og hvergi bólaði á beygjulegri kökurönd meðal sneiðanna. "Hvað kostar gulrótarkakan?", spurði ég. "550 krónur", var svarið. "Fyrir sneiðina?", spurði ég en áttaði mig um leið á því að spurningin var óþörf og sennilegast hallærisleg. "Já!", svaraði stúlkan eftir smá hik og hún horfði rannsakandi á mig. "Já, nei takk!", sagði ég og uppskar annað hik og aðra rannsókn.
Var þetta sanngjarnt verð? Nú reyndi á stærðfræðikunnáttu mína og flatarmálsreikning. Hver sneið virtist vera 7-8 cm á lengd og 5-7 cm á breidd. Þetta þýðir að það eru u.þ.b. 200 sneiðar í fermetranum af gulrótarköku. 200 sneiðar x 550 kr gera 110.000 kr. Það er þokkalegt fermetraverð!
Af þessu hlýt ég að draga þá ályktun að jafn fagmannlega sé staðið að gerð gulrótarkökunnar og kaffisins góða. Gulræturnar eru örugglega sérvaldar og hver veit nema sérvaldar lífrænt ræktaðar kanínur hjálpi til við valið. Deigið er sennilegast hnoðað eða hrært við kjöraðstæður undir ströngu eftirliti og hráefnin valin af kostgæfni. Rándýrir japanskir kökuhnífar eru að öllum líkindum notaðir við að skera skúffukökuna í sneiðar og er kakan örugglega aldrei meira en dagsgömul.
Næst þegar ég lít við hjá hótel mömmu fæ ég sennilegast eitthvert kaffisull sem búið er til úr baununum sem ekki voru valdar og hver veit nema ég finni sneið af ójafnt skorinni hjónabandsælu á kökudiski. Hver veit? Ég er alla vega kominn með vatn í munninn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að kaupa köku á kaffihúsi er eins og að kaupa sælgæti í leikhúsi; ekki hægt fyrir laun óbreytts blaðamanns.

Baldur mágur (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 23:20

2 identicon

Heill og sæll

 Gulrótarkökur, skyrtertur, ostakökur og þessháttar ókökur er nokkuð sem hefur komið óorði á tertu- og kökufjölskylduna. Ég man þegar að þessi ófögnuður fór að verða algengur - hvað hafði það í för með sér? Jú, sómakærar húsmæður fóru að slá slöku við bakstur á t.d. skúffukökum og djöflatertum af því að það var svo handhægt að snara fram þessu pakka"bakkelsi" sem er hið mesta óæti.

Mín reynsla er sú að allar "kökur" sem eiga að vera (samkvæmt einhverjum heilsuteoríum) hollar - eru vondar!!!

Hittumst heilir kæri vin, -og saddir!

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 16.12.2010 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband