Hrakfarir á heimleið

Ég sat sallarólegur á veitingastað í Alpabænum Trento þegar ósköpin dundu yfir. Sýningunni var nýlokið og ég var bara nokkuð sáttur. Áhorfendur höfðu fagnað mér vel og landar mínir sem sátu skælbrosandi á móti mér hrósuðu mér í hástert. Skyndilega fann ég léttan titring á vinstra lærinu. Nýi rándýri farsíminn minn sem aðeins var dagsgamall kallaði á athygli mína; ég var að fá skilaboð. Skyldi það vera unnustan, hugsaði ég brosandi. Var hún að skjóta rafrænum ástarörvum yfir Alpana? Það tók mig nokkrar sekúndur að átta mig á því að sendandinn átti ekkert skylt við þingeyska mey heldur voru þarna á ferðinni sjálvirk skilaboð frá flugfélaginu Air France. Brosið þurrkaðist hægt en örugglega af andliti mínu, sem bar ennþá merki kvennabúrsvarðarins Osmin eftir sýningu kvöldins og má segja að ég hafi breyst í Osmin aftur við lesturinn. Mér var tjáð að flugi mínu frá Verona morguninn eftir hefði verið aflýst og ég ætti bókað flug seinna um daginn. Bara sísona.

Ég var búinn að dunda mér í marga klukkutíma við að finna gáfulegustu (og ódýrustu) heimleiðina eftir þessa Ítalíudvöl. Planið var að fara með kvöldlest til Verona (klukkutími), fljúga til Parísar eldsnemma næsta dags og svo áfram til Íslands seinna í framhaldi af því. Ég þurfti að kaupa mér 2 aðskilda flugmiða þar sem næstumþvíeinokunarflugfélagið okkar (sem nú er rekið með rosalegum hagnaði) er ekki í miklu samstarfi við önnur flugfélög og því rándýrt að kaupa "langa" miða þar á bæ. Þetta plan mitt var sem sagt hrunið eins og spilaborg þar sem fluginu frá Verona til Parísar hafði verið aflýst. Ég reyndi í hvelli að hugsa upp eitthvað varaplan. Fara með lest til Parísar? Nei, til þess var ég of seinn. Taka bílaleigubíl? Léleg færð í Evrópu gerði þann kost ekki vænlegan. Ég ákvað því að taka lestina til Verona og gista þar á hóteli (sem ég hafði pantað) og reyna að skoða hvaða möguleika ég hefði þegar þangað væri komið. Tveimur klukkustunum síðar var ég kominn á hótelið og sat sveittur á internetinu að leita að mögulegum leiðum til að komast heim daginn eftir. Mér til mikillar ánægju sá ég að það var annað flug til Parísar; seinna en mitt upprunalega flug en fyrr en það sem mér hafði verið úthlutað. Ég ákvað því að vakna snemma, fara á flugvöllinn og reyna að fá að komast heim með þessari vél.

Morguninn eftir var ég mættur tímanlega á flugvöllinn í Verona, hóflega bjartsýnn á að kannski yrðu bæði Guð og lukkan með í för og byrjunin lofaði góðu. Ég var settur á "standby" ef eitthvað sæti yrði laust. En um það leiti sem ég fékk síðasta sæti flugsins úthlutað kom í ljós að fluginu myndi seinka um klukkutíma. Nú voru góð ráð afskaplega dýr. Í hvelli hringdi ég í Icelandair og fékk Parísarfluginu mínu heim breytt í Londonaflug heim. Þetta breyting kostaði heilan helling en breytingargjald eitt sér kostar yfir 20.000 kr. auk þess sem ég þurfti að greiða annað eins í farmiðaverðsmismun. Kvöldið áður hafði ég athugað með flug frá París til London og komist að því að British Airways bauð upp á lág verð og margar ferðir. Þegar til Parísar var komið og ég beið eftir töskunni sem geymdi líf mitt síðustu 3 mánuðina sá ég á skjá að vél Icelandair var um það bil að fara í loftið. Af hverju gat henni ekki seinkað? Jæja, þá var bara að drífa sig á söluskrifstofu British Airways.

Þeir sem ferðast mikið vita að CDG-flugvöllurinn í París er gríðarlega stór. Fyrst tók ég rútu sem var korter á leiðinni í rétta byggingu eða Terminal. Síðan hófst mikil ganga fram og aftur þangað til umræddur sölubás var fundinn. Ég bar brosandi upp erindið en í stað svars var mér réttur pappirssnepill. Þar stóð að vegna snjóregns og lélegs skyggnis á Heathrow hefði British Airways ákveðið að fella niður nokkur flug til Parísar. Því voru öll flug sem eftir voru uppbókuð og enga miða að fá. Mér féllust hendur og mig langaði til að fara að skæla. Hvaða stælar voru þetta eiginlega í örlögunum? Ég leit vonleysislegum augum framan í afgreiðslustúlkuna og bað hana um að "redda" mér. Þetta væri bara ekki sanngjarnt. Hún sagðist geta sett mig á "standby" en sá flugmiði myndi kosta tæpar 500 evrur. Þetta var nú öll reddingin. Ég hristi hausinn og leit svo í kringum mig svona eins til að athuga hvar stysta leiðin væri til að ganga hreinlega heim til Íslands. Afgreiðslustúlkan kom mér til hjálpar og benti mér á að kannski væri hægt að fá ódýrara flug hjá Air France.

Klukkutíma síðar og ansi mörgum þúsundköllunum fátækari var ég orðinn hamingjusamur eigandi "one way ticket" París-London á leið í gegnum vopnaleit og vegabréfaskoðun. Fluginu seinkaði síðan um eina klukkustund en ég náði kvöldfluginu frá London til Íslands og var lentur skömmu eftir miðnættið í blanka logni og brakandi frosti.

Ég var hins vegar blessunarlega ekki einn á ferð þennan dag. Endurminningabók Sigurðar Pálssonar, Minnisbók, fylgdi mér um Evrópu þvera og endilanga en Sigurður skrifar þar um námsárin sín í París. Það var ótrúleg tilviljun að þegar við vorum að lenda á Heathrow las ég um ferð Sigurðar heim til Íslands í gegnum London þar sem hann millilenti á sama flugvelli. Ég fletti á þennan kafla í sömu mund og lendingarhjólin snertu flugbrautina. Ótrúlegt.

Bók Sigurðar er frábær. Hún er vel skrifuð og skemmtileg og fær mann líka til að staldra við og hugsa. Hún fékk mig að auki til þess að skrifa nú loksins blogg eftir langt hlé. Hálfnaður á leiðinni heim frá London lokaði ég bókinni með bros á vör, sótti tölvuna og byrjaði að skrifa. Síðan fór ég úr skónum og þar sem ég sat í fremstu röðinni á almenna farrýminu teygði ég tærnar fram í Saga-Class. Þar skyldu þær fá að hafa það gott síðasta spölinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband