Innstökk og útkast

Stundum erum við söngfuglarnir beðnir um að stökkva inn í einhverja sýningu með litlum sem engum fyrirvara. Ég hef nokkrum sinnum "lent" í þessu og er ég ekki frá því að þetta geti bara nokkuð skemmtilegt stundum. Ég hef líka verið heppinn og stundum fengið fleiri samninga í kjölfarið. Hins vegar er alltaf önnur hlið á málinu og það er sú staðreynd að fyrir hvert "innstökk" er líka eitt "útstökk". Veikindi eru algengasta skýringin á því að ráða þarf nýjan söngvara "last minute". En stundum er um "útkast" að ræða, þ.e.a.s. söngvarinn stóðst ekki væntingar þeirra sem réðu hann og honum er einfaldlega bara hent út úr uppfærslunni.

Þegar umboðsskrifstofan hringir og spyr hvort maður geti "stokkið" inn á morgun þarf alltaf að fara vel yfir alla þætti. Í fyrsta lagi verður maður að vera laus, þá að kunna hlutverkið (ennþá), vera í góðu formi og yfir höfuð að nenna að standa í stressinu sem fylgir þessari vinnuleikfimi. Ég var einu sinni beðinn um að taka næstu vél til Vínarborgar og debútera við ríkisóperuna með engum fyrirvara. Þetta var auðvitað freistandi en fyrirvarinn var of stuttur og ég þ.a.a. staddur "úti á landi", fjarri Keflavíkurflugvelli.

Í gær var ég beðinn um að stökkva inn í tvær sýningar í Hamborg. Umboðsskrifstofan fékk mig því miður ekki lausan héðan frá Spáni en ég hefði glaður tekið sénsinn og sungið tvö stykki Brottnám í Norður-Þýskalandi. Þetta er eiginlega alger synd því að það væri alveg hægt að vera án mín í 3 daga; ég hef jú gert þessa uppfærslu áður og þarf ekki allar þessar æfingar. En svona er þetta stundum og einhver annar söngvari fær salt í grautinn um þessa helgi.

Æfingar ganga annars bara vel og þetta er flottir söngvarar sem eru að syngja með mér. Hljómsveitarstjórinn, sem ég ætla ekki að nafngreina, er líka mjög fínn en skiptir sér einum of mikið af uppsetningunni sem hann þekkir reyndar ekki ennþá. Þetta gerir aðstæðurnar erfiðari fyrir okkur söngvarana þar sem erfitt getur reynst að þjóna tveimur herrum í einu. Maður getur eins ímyndað sér tvo lögreglumenn stjórna umferð á sömu gatnamótnunum án þess þó að þeir viti hvor af öðrum.
Hvað um það, það eru margir dagar í frumsýningu og nægur tími til að samræma ólík sjónarmið. Þangað til sigli ég milli skers og báru og vona bara að ég strandi hvorki né sökkvi í óperunnar ólgusjó.


Grár ástarþríhyrningur!

Í óperunni sem ég er að fást við núna er svolítill ástarþríhyrningur. Tenórinn Belmonte (ísl. þýðing: Fagrafjall) kemur að frelsa sópranann Konstönsu úr kvennabúri leikarans Bassa Selims. Í þeim uppfærslum sem ég hef sungið af Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart hefur samband þessara peróna alltaf verið efni í miklar umræður. Deilt hefur verið um hvort Konstansa elski Selim (Stokkhólmssyndrómið?) eða hvort hún beri bara virðingu fyrir honum. Oft er líka rætt um það hvort þau hafi sofið saman en á það er nú svo sem ekkert minnst í texta óperunnar. Á æfingu í gær deildu sópraninn og hljómsveitarstjórinn um þetta mál. Hún meinti að Konstansa væri auðvitað ástfanginn af Selim (týpísk kvennaskýring) en hljómsveitarstjórinn sagði að það gæti bara alls ekki verið. Um þetta var rætt í 20 mínútur og eiginlega til einskis því í leikstjórninni (sem er 40 ára gömul) kemur bara ekkert fram um þetta.

Það sem mér fannst skemmtilegast við þessar umræður var að þetta var svona "svart eða hvítt" fyrirbæri, "annað hvort eða". Eins og það væri bara ekki möguleiki að hún bæri tilfinningar til hans sem erfitt væri að skilgreina og setja merkimiða á. Við viljum nefnilega oft einfalda hlutina til að geta sett þá á ákveðinn stað og tekið svo skýra afstöðu til þeirra.

En þetta er bara ekki alltaf svona einfalt. Hér eru nokkur dæmi sem erfitt er að svara með já eða nei.

  • Þykir þeim sem ekki fer með fjölpóst í endurvinnslu ekki vænt um náttúruna?
  • Er sá sem skammar börnin sín harðstjóri?
  • Eru þeir sem ekki gefa pening í þriðjaheimssöfnun eiginhagsmunaseggir?
  • Er sá óstundvís sem kemur of seint í vinnuna af því að hann hjálpaði gamalli konu að skipta um dekk?

Það er ekki alltaf einfalt að koma með afgerandi svar af þeirri einföldu ástæðu að lífið er ekki svo einfalt.

Kannski er hins vegar til einfalt svar við þessari spurningu:

  • Er ég að sóa bæði mínum og þínum tíma með þessum bloggskrifum?



Ömmublogg

Alger misnotkun á orðinu amma í bloggi gærdagsins og athugasemdum sem fylgdu í kjölfarið kveiktu þá hugmynd hjá mér að skrifa nokkar línur um þennan elskaðasta meðlim hinnar venjulegu fjölskyldu. (Hinu megin á listanum húkir sennilega tengdamamman ein og yfirgefin).

Á skemmtilegum keramikplatta sem börn eru látin gefa ömmum sínum (eftir ómælda ókeypis barnapössun) stendur margt áhugavert. M.a. að ástæðan fyrir því að ömmur hafi svona mikinn tíma fyrir börn sé sú að þær hafi aldrei átt nein börn sjálf. Þrátt fyrir augljós erfðafræðileg vandkvæði er hér mikill sannleikur á ferð. Við ímyndum okkur sjaldnast ömmur okkar sem ungar og tímalitlar mæður í lífsgæðakapphlaupi. Þær eru hins vegar þolinmóðar og skilningsríkar og hafa þannig nærværu að maður hagar sér miklu betur hjá þeim en heima hjá sér. Svo baka þær svo fínar pönnukökur og eiga alltaf ískalda mjólk í ískápnum. Ömmur okkar prjóna líka flottustu lopapeysurnar og kippa sér ekkert upp við það þó að mann vanti nýja peysu annað veifið.

Ég þekki fullt af ömmum og þær eru allar nokkurn vegin svona, held ég. Það er erfitt fyrir mig að sækja upplýsingar í eigin reynslubrunn í þessum efnum. Önnur amma mín bjó öll sín fullorðinsár í Danmörku og hana á ég víst að hafa hitt einu sinni. Hinn amma mín dó þegar ég var lítill pjakkur. Með henni eyddi ég miklum tíma (sem ég man eiginlega ekki eftir), því hún passaði mig þegar foreldrarnir voru að vinna, pabbi í harkinu og mamma að slíta sér út í frystihúsinu. Sú amma mín kenndi mér bænir og innrætti 3ja ára bassasöngvaraefni með snuddu góða siði. Allir sem mig þekkja vita að þar tókst henni einkar vel til. Hún kenndi mér líka að spila einföld spil en var óhrædd við að svindla á mér ef ég var að vinna því þrátt fyrir allt gott gat amma ekki hugsað sér að tapa. Eftir að hún dó hélt ég áfram að spila við hana einhver skipti og þá skipti engu máli lengur hvort okkar vann.

Þrátt fyrir að muna varla eftir henni þá þykir mér vænt um ömmu mína, sem hét Guðrún Lilja og hefði orðið 112 ára á morgun.


Hvað getur orðið mér til minnkunar?

Nú er ég í vanda. Batnandi mönnum er bezt að lifa og eftir stigvaxandi þyngdaraukningu undanfarin 20 ár er kominn tími á viðsnúning. Ég fór í hressilega megrun um tvítugt og náði mér m.a.s. niður í meðalþyngd (stóð stutt) en síðan þá hefur þróunin verið "út á við", með örfáum ómerkilegum undantekningum. Gallsteinakastið sem ég fékk í Japan kom mér síðan á sporið í þetta sinn og á hótelinu sem ég dvaldi þar var hin ágætasta líkamsræktaraðstaða. Ég náði því að taka harkalega heilsufars-u-beyju á Hotel Hilton Tokyo, snúa vörn í sókn í rúmmálsminnkun og hreyfanleika og tókst að "hlaupa" 2 1/2 km á skemmri tíma en kærastan sem þrátt fyrir ungan aldur kallar ekki allt ömmu sína.

Að loknum sex vikum í Japan kom ég heim til Íslands (einni vænni bowlingkúlu léttari). Ég þurfti auðvitað tíma til að snúa sólarhringnum við og á degi 2 fór ég á fætur klukkan 5 og byrjaði að laga til. Klukkan 8 leiddist mér þófið; ég fór í íþróttaskóna, dró fram æpottinn og skellti mér út að hlaupa við glymjandi popp- og diskótónlist æskuáranna. Mér varð auðvitað skítkalt og eftir 20 mínútna skemmtiskokk sneri ég aftur heim og vakti kærustuna.

Daginn eftir var ég örlítið aumur í hnjánum. Ég hringdi í bróður minn sem sennilega kallar bara alls ekki neitt ömmu sína. Hann var að komast að því að hann væri "búinn" með hnén á sér eftir mikla líkamsrækt og ótrúlega ósérhlífni í hálfa öld. Um árið hjólaði hann hringinn og  skaut þar yngri samstarfsmönnum ref fyrir rass. Nú er hins vegar komið að skuldadögum og bráðum verður skurðhnífasettið brýnt.

Ég var aldrei svona ósérhlífinn enda þykir mér mjög vænt um sjálfan mig og því langar mig ekkert að eyðileggja á mér hnén. Bróðir minn benti mér á skokk á malbikinu kæmi alltaf niður á hnjánum, alveg sama hve góða skó maður hefði. Þar að auki væri ég ekki sá léttasti (verð auðvitað aldrei "sá léttasti"). Bezt væri að ganga rösklega, t.d. á bretti og upp halla.

Nú kemur að vanda mínum. Hér á hótelinu á Spáni er bara engin líkamsrækt og það eina sem mér var bent á er eitthvað geðveikt heilsuspa í hálftíma fjarlægð þar sem skiptið kostar 2500 kr. (nema maður sé 4 ára eða yngri). Hvað á ég að gera? Ég er með nokkrar hugmyndir.

  • Setja heilsurækt á ís og hugsa um andlega velferð (t.d. drekka góð vín og borða Tapas)
  • Hafa ekki áhyggjur af hnjánum og fara út að skokka.
  • Ganga upp allar átta hæðir hótelsins og taka svo alltaf lyftuna niður.
  • Skokka berfættur úti á strönd í anda bandarískra sjónvarpsþátta um baðverði, brúnku og blondínur.

Kannski getur einhver hjálpað mér?

Ég gæti auðvitað bankað hjá úthaldsgóða nágranna mínum á 607 og fengið góðar ráðlegginar.


Sex á Richter!

Gærdagurinn fór öðruvísi en ætlað var. Eftir að hafa skrifað um það í gærmorgunn að best væri að halda sig heima svona veikur, ákvað ég að sýna lit (veiklulegan) og mæta á æfingu eftir hádegið. Ég gerði auðvitað öllum ljóst að það væri stórhættulegt að koma of nálægt mér en leikstjórinn vildi endilega að ég léti sjá mig ef ég treysti mér til. Með aðstoð 1000 mg af Parasetamóli náði ég hitanum niður og hausverknum í burtu og mætti því á æfingu seinni partinn. Þetta gekk sem betur fer allt vel og virðist mér ekki hafa orðið meint af volkinu; alla vega er ég betri í dag ef eitthvað er.

Að æfingu lokinni lagði ég mig örlitla stund á ofurbreiðu rúminu á hótelherbergi mínu númer 606. Eftir skamma stund hrökk ég upp með andfælum við mikinn titring og læti. Ég var fljótur að leggja saman tvo og tvo og niðurstaðan var jarðskjálfti. Í áðurnefndri ferð minni til Japan varð ég stundum var við litla og stutta jarðskjálfta þannig að rúmið dúaði eða þá að það marraði aðeins í hillum og skápum. Jarðskjálftinn í gær stóð hins vegar eitthvað lengur og þegar ég hafði vaknað almennilega sá ég að tveir plús tveir í þessu tilviki skiluðu niðurstöðunni sex.

Hér var auðvitað ekki jarðskjálfti á ferðinni heldur var um heljarmikinn hamagang hinu megin við hótelþilið að ræða. Nágrannar mínir í herbergi 607 höfðu greinilega ákveðið stytta sér stundir á laugardagseftirmiðdegi með því að sinna einni af þessum grunnþörfum sem flest okkar hafa. Hótelherbergi eru oft þannig byggð að þau speglast hvert við annað. Í þessu tilviki er rúmgafl minn við sama vegg og rúmgafl herbergis 607 þannig að allt hoss og allur hristingur í rúmi nágrannanna berst beint yfir í mitt rúm. Ég brosti í út í annað, velti mér á hina hliðina og ákvað að reyna að sofa örlítið lengur. Hálftíma síðar var ég enn vakandi og áttu hinir úthaldsmiklu nágrannar mínir sinn þátt í því en þeir höfðu ekki slakað á allan þennan tima. Nokkrum mínútum síðar var jarðhræringunum lokið og langaði mig helst til þess að stökkva á fætur og hrópa ferfalt húrra.

Skömmu eftir miðnættið kom næsta hryna. Hún var heldur styttri og snarpari en mældist samt á jarðskjálftamælum í herbergi 606.

Þegar ég mætti síðan í morgunmat áðan leit ég yfir gestahópinn og spurði mig um leið hverjir væri hugsanlega nágrannar mínir. Hjón á áttræðisaldri á næsta borði virtust ekki vera líkleg til stórræða og fjórar miðaldra konur á því næsta ekki heldur. Núna þegar ég klára þessa bloggfærslu í lobbýi hótelsins sitja 3 ungar konur og sportlegur ungur maður í næsta sófa. Með örlítið ímyndunarafl í farteskinu sé ég að hér eru nágrannar mínir komnir. Þau eru líka öll eitthvað svo þreytuleg.

Ungi maðurinn er líka hóstandi.... kannski hefur hann smitast í gegnum þilið!


Verðlagning á klaufaskap!

Eftir tvær heitar nætur á Spáni er ég enn innimatur. Hitinn hefur að visu lækkað en ég er enn með höfuðverk og svo er ég farinn að finna til þegar ég kyngi. Ég fer því sennilega ekki á æfingu í dag, þó ekki væri nema fyrir þær sakir að það væri kvikinislegt að smita samsöngvarana af íslenskri flensu. Söngvarar eru nefnilega alltaf á varðbergi gagnvart pestum og kvefi sem skiljanlegt verður að teljast og það er ekki vinsælt að koma á æfingu og hósta framan í titrandi tenóra og skjálfandi sóprana sem eiga sér ekki neins ills von.

Ég dreif mig samt í morgun á fætur og fór í morgunmat. Þar hitti ég mér til mikillar ánægju ameríska sópransöngkonu sem ég hef nokkrum sinnum sungið með: Susan Anthony. Ég settist á móti Súsönnu en reyndi um leið að halda mér í eins mikilli fjarlægð frá henni eins og hægt var. Við skiptumst á fréttum, slúðri og óperusögum og þegar ég kláraði úr kaffibollanum mínum sagði ég henni frá dýrasta kaffi sem ég hef nokkru sinni drukkið.

Þannig var að í nóvember s.l. kom dóttir mín 5 ára í tvær vikur til Íslands. Ég bæði sótti hana og fór með hana til baka og til þess flaug ég tvisvar fram og til baka til Frankfurt. Ég var bara með handfarangur og þurfti því aðeins að innrita mig töskulausan þegar á ég var lentur. Þegar ég sótti hana var þetta einfalt, ég lenti í Frankfurt og þar beið hún eftir mér við hliðið og við fórum beint í vélina aftur. Tveimur vikum síðar þegar ég skilaði henni aftur þurfti ég að fara með hana alla leið í gegnum tollinn. Vélin var á vel á undan áætlun þannig að þetta gekk mjög vel fyrir sig. Við sóttum töskuna og mamma hennar tók á móti henni eftir það. Ég fór beint í innritun og komst þá að því að ég hefði alveg klukkutíma þangað til ég ætti að mæta við hliðið.

Til að drepa tímann fór ég á smá flakk á flugvellinum; skoðaði föt og ferðatöskur (mikill áhugamaður um ferðatöskur) og loks settist ég á Starbucks og fékk mér Caramel Macchiato fyrir 500 krónur. Á meðan ég sötraði í mestu makindum þennan dísæta karamellukaffidrykk velti ég því fyrir mér hvenær þessi vinsæla kaffihúsakeðja kæmi til Íslands. Ég er viss um að staðurinn myndi slá í gegn þó svo að karamellukaffið mitt kostaði sennilega 1000 krónur í Reyjavík. Í þessum hugsuðu orðum gengur kona fram hjá borðinu mínu sem ég kannaðist við. Eftir smá tíma mundi ég hvaðan ég þekkti hana. Hún vann (og vinnur kannski enn) á innritunarborði Icelandair í Frankfurt og við að hleypa fólki inn í vélarnar við brottför. Mér fannst skrýtið að hún væri á þessu vappi svona stuttu áður en innritun ætti að hefjast. Ég leit á klukkuna og sá að ég hafði nægan tíma en...... þá mundi ég eftir svolitlu sem á ekki að geta gerst. Ég hafði gleymt að breyta úrinu mínu þegar ég lenti! Klukkan var ekki hálf 2 heldur hálf 3.

Þrátt fyrir að hlaupa eins og vitleysingur og ryðjast fremst í allar biðraðir kom allt fyrir ekki. Ég var búinn að missa af vélinni heim. Niðurbrotinn yfir eigin klaufaskap hringdi ég í Icelandair og þeir bókuðu fyrir mig flug í gegnum Kaupmannahöfn seinna um kvöldið.

Þetta var dýr kaffibolli í Frankfurt. Hann kostaði mig 22.499 krónur.


Af volæði og veikindum!

Eftir allt of stutta en þó yndislega heimveru í kjölfar ævintýralegarar Japansferðar liggur leið mín yfir hafið að ströndum Norður-Spánar. Þessi vinnustaður minn næstu 3 1/2 vikuna heitir La Coruna og er á norðvestur odda landsins. Íbúar þessarar 17. stærstu borgar Spánar eru tæplega 250.000 og borgin státar meðal annars af 2000 ára gömlum vita og þekktum og virtum fótboltaklúbbi.

Ég er hingað kominn til að syngja kvennabúrshúsvörðinn Osmin en sýningar mínar í hlutverki þessa einfalda skúrks eru að nálgast 70. Þetta er líka í 3ja sinn sem ég syng þessa uppfærslu en hún er eftir hinn fræga leikstjóra Giorgio Strehler sem lést fyrir nokkrum árum síðan.

Með réttu ætti ég núna að vera á æfingu en þar sem ég ákvað að veikjast heiftarlega á leiðinni verð ég víst að halda mig innan dyra um stundarsakir. Ég fann það i gærmorgun þegar ég lagði í hann að einhver fjandans pest væri að leggjast á mig. Það reyndist því miður rétt og eftir 5 tíma stopp í Lúndúnum tók ég inn hitalækkandi til þess komast þokkalega á leiðarenda. Í gærkveldi þegar pillurnar hættu að virka skall hitinn á mig af miklum þunga og síðan þá hef ég ekki yfirgefið hótelherbergið. Ég er eitthvað skárri í dag en sennilega verð ég líka mestmegnis innandyra á morgun.

Þeir sem vel til mín þekkja vita að í nýafstaðinni Japansferð fékk ég miður skemmtilegt gallsteinakast og get ég ekki neitað því að það rifjast hressilega upp fyrir mér núna þegar ég loka mig inni á hóteli sveittur og illa útlítandi.

En nóg af volæði og aumingjaskap; ég er allavega búinn að skrifa fyrsta bloggið mitt í marga mánuði og stefni að því að vera duglegur að færa inn í þessa opinberu dagbók næstu vikurnar.


Svartur blettur í sögu íslenskra varnarmála?

Við heimildaöflun rakst ég á þessa athyglisverðu grein í bókinni Ísland í aldanna rás (bls 11), þar sem fjallað er um varnarsamninginn við Bandaríkin. Hér er texti tekinn beint upp úr þeirri bók:

Íslensku ríkisstjórninni var það mikið kappsmál í viðræðum um varnarsamninginn við Bandaríkin að ekki yrðu sendir til landins svartir hermenn. "Íslendingar hafa ekkert á móti hinum lituðu vinum okkar, en þeir eru ekki vanir þeim og gætu verið hræddir við þá," sagði ónefndur íslenskur embættismaður í viðræðum við Bandaríkin.

Athyglisvert?


Illa tekinn!

Móðir mín er með áskrift af Stöð2. Hún var svo elskuleg að taka upp fyrir mig nokkra sjónvarpsþætti á þeirri ágætu stöð s.l. föstudag. Meðal annars var þátturinn "Tekinn 2" sem sennilega er flestum landsmönnum að góðu kunnur.

Þetta var athyglisverður þáttur og það var forvitnilegt að fylgjast með því hvernig gildrur voru lagðar fyrir tvo saklausa borgara sem báðir hafa atvinnu af því að syngja. Það var aðdáunarvert hvernig þau héldu bæði andlitinu þrátt fyrir að reynt væri að hrekkja þau þegar þau voru að syngja. Greinilegt var að það átti að búa til skemmtilegan sjónvarpsþátt og þegar annar söngvarinn lét fullan gest í brúðkaupsveislu ekki trufla sig þá gaf þáttarstjórnandi skipun um að nú skyldi sá "fulli" ráðast á listamanninn. Þetta varð auðvitað til þess að slagsmál hófust en sem betur fer í stutta stund því myndavélamaðurinn hljóp inn í salinn og söngvarinn fékk að vita að hann hefið verið "tekinn".

Nú er búið að "taka" flesta af þekktustu listamönnum landsins. Þeir sem ekki hafa verið teknir ennþá eru sennilega alltaf á varðbergi.

Bergþór stórsöngvari Pálsson á afmæli í dag og ég er á leiðinni á afmælisveislutónleikana hans í Salnum. Afmælisveislan væri hið fínasta sjónvarpsefni, eins og hún verður og án þess að einhver sé leiddur í gildru.

 Beggi - til hamingju!


btk

Hæ, ég heiti btk og bý á bg3 í RV. Það var kominn tími á blg en því miður er ég búinn að hafa svo mikið að gera undanfarið að ég hef varla komist í tö. Ég flutti frá Þl til Ís í lok ág og kann vel við mig á hbs. Veðrið er reyndar búið að vera öl en bráður kemur vt svo þetta er ok. Í des er síðan 2412 en þá kom JK í heiminn en móðir hans var einmitt MM. Núna er ég á fullu í HÍ og svo er ég að kenna söng í SSD ásamt þvi að gaula stundum í jf. Bráðum er síðan sýning á fjölum ÍÓ þar sem ég, SH, ÁÓ og fleiri koma fram. KK er á píanóinu. Þetta verður sl og ég ht.

bíb

btk

...ég er bara N1 Íslendingurinn sem tileinkar sér skammstafanir um þessar mundir: N1, A4 (gamli Oddi) og svo 24 stundir (gamla Blaðið)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband