Ástralía, here I come!

Næstu 2 vikurnar dvel ég í Melbourne í Ástralíu. Hér er stutt rauntímalýsing á ferðalaginu þangað, sem tekur á annan sólarhring.

Föstudagur:

16:00 (ísl) - Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Örlítið kenndur eftir bjórdrykkju á betri stofu Icelandair stíg ég um borð í vél félagins á leið til London. Við hlið mér í viðskiptafarrými situr unglingsstúlka sem greinilega er vön að ferðast hérna megin við bláu gardínuna. Boðið er upp á kalt rækju- eða roastbeef salat. Ég tek rækjurnar og skola þeim niður með einni lítillli hvítvínsflösku sem rennur ljúft niður í lítinn maga.

20:00 (ísl) - Heathrow, London
Eftir tveggja tíma stopp í London sest ég um borð í 747-400 vél hins ástralska flugfélags Qantas. Í London keypti ég tengi til að geta sett tölvuna í samband á nýja áfangastaðnum. Við hlið mér í vélinni situr enskur kaupsýslumaður sem kennir samstarfsaðilum sínum að bræða sínk; mjög áhugavert. Ég skýri út fyrir honum að óperur séu sjaldnast sungnar á grísku. Af matseðli vel ég lax með zucchini-sósu og rieslinghvítvín. Í eftirrétt eru ostar. Ég stytti tímann með því að horfa á hálfa Iron Man í myndbandakerfi vélarinnar. Myndin veldur mér vonbrigðum og ég tek inn svefnpillu, breyti sætinu í rúm og leggst til hvílu (um klukkan 24).

Laugardagur:

07:00 (ísl) - Yfir Bankok
Ég vakna eftir góðan svefn. Það eru þrír tímar í lendingu og ég glugga í bók Jónínu Michaelsdóttur frænku minnar um Þuríði Pálsdóttur söngkönu. Sannarlega skemmtileg og athyglisverð bók. Klukkan 8 er morgunmatur borinn fram og ég snæði eggjahræru og samloku af bestu lyst. Við lendum í Singapore um klukkan 10:00 og það eru tveir tímar í áframhaldandi flug.

11:00 (ísl) - Flugvöllurinn í Singpore
Þar sem unnustan er sennilega komin á æfinu ákveð ég að senda henni sms í gegnum netið. Það er örlítið skrítið að það sé komið kvöld og ég sé nýkominn á fætur. Ég skelli mér samt í betri stofu British Airways og fæ mér salat og gos.

15:00 (ísl) - yfir Norður-Ástralíu
Það eru tæpir fjórir tímar í lendingu í Melbourne og ég sit og pikka á tölvuna. Nautakjöt með hrísgrjónum og græmeti bragðaðist ágætlega með áströlsku rauðvíni. Pistasísusúkkulaðimyntukakan var líka alveg ágæt og annað glas af rauðvíni fylgdi henni niður meltingarveginn. Það situr enginn við hliðina á mér og ég er staðráðinn í að ná kríu þó ég sleppi kannski svefnpillu í þetta sinn. Það eru nefnilega bara 2 tímar í morgunmat!

20:00 (ísl)- Melbourne, Ástralía
Ég sit í Lobbíinu á íbúðahótelinu sem búið er að bóka fyrir mig. Klukkan er 6 að morgni á sunnudegi og 28 klukkustunda ferðalag er að baki. Mér tókst að sofa í tvo tíma í síðasta fluginu og eftir morgunmatinn komst ég að því að ég var búinn að missa vegabréfið mitt ofan í sætið/rúmið í vélinni. Það var ekki fyrr en eftir lendingu að ég fann passann og eftir að hafa sótt töskurnar og hringt í unnustuna (sem er með vinkonur í slípóver) fór ég í sérstaka sérstaka röð fyrir fólk sem flytur með sér vafasaman farangur inn í landið. Ég tók nefnilega golfskóna með mér og þar sem þær gætu borið með sér hættulegan sýktan íslenskan jarðveg af Vatnsleysuströndinni þá þurfti ég að taka þá upp úr töskunni. Ég slapp við allar meiri háttar sóttvarnaraðgerðir og þegar ég var kominn í gegnum tollinn beið eftir mér maður sem ók mér á íbúðahótelið. Þar sit ég núna, ekki alveg ánægður, vegna þess að næturvörðurinn er ekki með neinar upplýsingar um komu mína hingað. Ég þarf að bíða eftir að fólk úr móttökunni komi en það er von á því von bráðar.

Sunnudagur:

2:46 (ísl)  - Melbourne, Ástralía
Þá lýkur þessari ferðasögu. Ég er kominn inn á íbúð 211 á 21. hæð og þarf nú að einbeita mér að því að snúa við sólarhringnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Nú, nú!!  Golfskórnir með?? Ætla menn að æfa stíft og lækka forgjöfina?

Þú varst ekkert að minnast á þetta þegar ég rúllaði þér upp á Vatnsleysunni.

Sigurður Haukur Gíslason, 17.8.2008 kl. 23:59

2 Smámynd: Bjarni Thor Kristinsson

Ég tók skóna með til öryggis..... Annars rétt marðiru þetta um daginn og bara af því að ég var ekki að vanda mig!!!

Bjarni Thor Kristinsson, 18.8.2008 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband