Þunglyndi í gleðibankanum!

Osmin og Pedrillo"Tíminn líður hratt á gervihnattaöld" sungu fyrstu íslensku eurovisionvíkingarnir um árið. Nú styttist í keppnina einu sinni enn og kannski eigum við loksins tækifæri á að komast í lokaumferðina eftir að reglum um forkeppnina var breytt. Mín skoðun er sú að markmiðið með þátttöku okkar sé ekki endilega að vinna heldur að hafa vandaða forkeppni á Íslandi þar sem besta lagið (mjög huglægt) sigri en ekki endilega það lag sem við teljum að eigi mesta möguleika úti í hinum stóra heimi. Forkeppnin í ár var óttalega langdregin með öllum þessum endurtekningum en lögin sjálf voru fín þó ólík væru. Þannig á það líka að vera. Áfram Ísland!

Tíminn líður hins vegar ekkert sérstaklega hratt hérna í La Coruna. Æfingar ganga ágætlega en þegar maður þekkir bæði hlutverkið og uppfærsluna vel þá er 3ja vikna æfingatími einfaldlega of langur. Ég er auðvitað ekkert að kvarta neitt en svona er þetta bara og ég reyni að drepa tímann milli æfinga með bloggskrifum og búðarrápi en eins og trúir lesendur síðunnar vita þá eiga veðurguðirnir á þessum slóðum við tímabundið þunglyndi að etja og því lítið annað að gera en vera innandyra.

En það eru fleiri en veðurguðirnir sem eiga erfitt. Í gær tók ég leigubíl á leið minni í stutta innkaupaferð. Á 5 mínutuna kafla heyrði ég öll þau skammaryrði sem spænskan hefur upp á að bjóða því geðvondur bílstjórinn hrópaði og kallaði að minnsta tilefni. Einn ók of hægt, annar lagði skakkt, sá þriðji gaf ekki stefnuljós. Ég var skíthræddur um að það yrði hraunað yfir mig líka ef ég yrði ekki nógu fljótur að borga þannig að þegar komið var á áfangastað greiddi ég í hvelli og stökk út úr bílnum.

"Þú skalt syngja lítið lag um lífsgleðina sjálfa í brjósti þér!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

100% sammála Eurovisionklausunni þinni.

Annars var sungið "gervihnakkaöld" á mínu heimili af einni sem var fjögurra ára 1986.

Kristbjörg Clausen (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband