Erum við stolt af skemmdarvörgum?

Fréttir af skemmdarverkum og ólátum eru áhyggjuefni. Kreppan er bara rétt að byrja. Eftir nokkra mánuði hafa sennilega margir misst allt sitt; vinnuna og íbúðina auk þess sem þetta hefur stressandi áhrif á allt heimilslíf og barnauppeldi.
Hvernig þróast mótmælin þá? Fleiri skemmdarverk? Ofbeldi? Við sem þjóð erum rúin trausti á alþjóðlegum viðskiptamarkaði en höfum ennþá stöðu meðal siðmenntaðra þjóða þar sem ofbeldi á götum úti er einungis tengt við áfengisdrykkju og næturlíf en ekki götuóeirðir og skemmdarverk.
Svo velti ég því fyrir mér hvort einhver vilji virkilega að allt á Íslandi fari í að snúast um alþingiskosningar, þar sem pólitíkusar keppast um að selja skrattanum ömmu sína bara fyrir það eitt að komast á þing?
Mér finnst að sú ríkisstjórn sem nú er þurfi að axla ábyrgð, en einmitt með því að standa vaktina meðan þetta er að ganga yfir. Hvort sem kosið verður á næsta ári eða síðar skiptir minna.
mbl.is Máluðu Valhöll rauða í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðinn leiður á marklitlum könnunum!

Mikið er ég orðinn þreyttur á því þegar skoðanakönnunum sem þessum er skellt á þjóðina "í miðjum kliðum". Þetta er eins og að spyrja hóp af fólki með tímabundna hægðatregðu hvað það óski sér helst. Margir myndu eflaust svara með: "Drulla".

Nær hefði verið hjá Gallup að spyrja hvort viðkomandi teldi líklegt að hann/hún flyttist til útlanda á næstunni vegna ástandsins. Þá fengist miklu áhugaverðari niðurstaða. Hvenær hugleiðir maður ekki eitthvað?

Ástandið hjá okkur er of alvarlegt til þess að einhver umræða sem þessi fari af stað á "kolröngum" forsendum.


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn í Eyjaálfu!

Þá er ástralíuvistin mín hálfnuð. Það er auðvitað ekkert skrítið við að vera hinu megin á hnettinum nema bara vitneskjan um það. Það að sólin gangi rangshælis vekur ekki mikla athygli mína né heldur sú staðreynd að hér sé vetur. Hitinn hefur líka verið innan ramma íslensks sumars: 10-18 gráður. Það er einna helst að ég sé í lífshættu þegar ég hleyp yfir götur og gleymi því um stundarsakir að hér er vinstri umferð.

Borgina Melbourne er ég aðeins búinn að skoða. Ég fór t.a.m. í labbitúr í gær um miðborgina þar sem götukerfið er hannað eins og rúðustrikað blað, ekki ólíkt því sem maður á að venjast í Ameríku. Það er líf á götunum. Mikið af ungu fólki á ferðinni og mikið af alls konar afþreyingu. Ég skellti mér á spennumyndina Taken og bíóið minnti mig á íslensk bíó, nema hvað sætin voru númeruð og ekkert hlé var gert á sýningu myndarinnar.

Fyrir mér kemur ástralskt samfélag fyrir eins og blanda af evrópsku, amerísku og asísku. Fólkið hérna er mjög almennilegt en um leið ekki svo yfirborðskennt. Hversdagsneyslan er meiri en á meginlandi Evrópu en minni en í BNA. Síðan er auðvitað miklu meira af asískum mat á boðstólnum en við eigum að venjast.

Þessi blanda heppnast mjög vel og niðurstaðan er fallegur staður, þægilegt samfélag, góður matur og skemmtilegt fólk.

Vinnan hefur líka gengið vel. Konsertarnir okkar eru í Hamer Hall, rúmlega 2000 manna sal í Art Center, sem er samansafn bygginga og stofnana sem snúast um list. Samsöngvararnir eru mjög fínir, hljómsveit og kór sömuleiðis og allt starfsfólk hið almennilegasta.

Enn sem komið er hef ég ekki séð hoppandi kengúrur eða eitraða sporðdreka.....


Tónlistin gerir útslagið

Því miður er ég ekki enn búinn að sjá Mamma Mia en mest langar mig að sjá hana með mömmu. Það er ótrúlegt og í raun frábært að þessi mynd skáki Leðurblökufimleikamanninum með klósettröddina. Sú mynd fannst mér fínasta afþreying en er að mínu mati langt frá því að vera eitthvað meistaraverk. Svo er búið að hampa myndinni svo mikið í fjölmiðlum að fólk þorir varla að segja eitthvað neikvætt um hana.

Þeim mun sætara fyrir Abba og X-James Bond.


mbl.is Mamma Mia! langvinsælasta mynd sumarsins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kallar maður kvenkyns flugdólg?

Ég hef orðið vitni að (íslensku) kvenfólki sem hagað hefur sér dólgslega í flugvél. Vantar bara nafn á það. Flugdólgur er eitthvað svo "karlmannlegt" orð.
mbl.is Tveir flugdólgar leiddir burt í járnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyktar af markaðssetningu

Það er frábært að þremenningarnir styðji stúlkuna. Hins vegar veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé um leið bragð til þess að vekja athygli á myndinni. Annað eins hefur nú sést.

 


mbl.is Dóttir Heath Ledgers fær laun þriggja leikara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástralía, here I come!

Næstu 2 vikurnar dvel ég í Melbourne í Ástralíu. Hér er stutt rauntímalýsing á ferðalaginu þangað, sem tekur á annan sólarhring.

Föstudagur:

16:00 (ísl) - Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Örlítið kenndur eftir bjórdrykkju á betri stofu Icelandair stíg ég um borð í vél félagins á leið til London. Við hlið mér í viðskiptafarrými situr unglingsstúlka sem greinilega er vön að ferðast hérna megin við bláu gardínuna. Boðið er upp á kalt rækju- eða roastbeef salat. Ég tek rækjurnar og skola þeim niður með einni lítillli hvítvínsflösku sem rennur ljúft niður í lítinn maga.

20:00 (ísl) - Heathrow, London
Eftir tveggja tíma stopp í London sest ég um borð í 747-400 vél hins ástralska flugfélags Qantas. Í London keypti ég tengi til að geta sett tölvuna í samband á nýja áfangastaðnum. Við hlið mér í vélinni situr enskur kaupsýslumaður sem kennir samstarfsaðilum sínum að bræða sínk; mjög áhugavert. Ég skýri út fyrir honum að óperur séu sjaldnast sungnar á grísku. Af matseðli vel ég lax með zucchini-sósu og rieslinghvítvín. Í eftirrétt eru ostar. Ég stytti tímann með því að horfa á hálfa Iron Man í myndbandakerfi vélarinnar. Myndin veldur mér vonbrigðum og ég tek inn svefnpillu, breyti sætinu í rúm og leggst til hvílu (um klukkan 24).

Laugardagur:

07:00 (ísl) - Yfir Bankok
Ég vakna eftir góðan svefn. Það eru þrír tímar í lendingu og ég glugga í bók Jónínu Michaelsdóttur frænku minnar um Þuríði Pálsdóttur söngkönu. Sannarlega skemmtileg og athyglisverð bók. Klukkan 8 er morgunmatur borinn fram og ég snæði eggjahræru og samloku af bestu lyst. Við lendum í Singapore um klukkan 10:00 og það eru tveir tímar í áframhaldandi flug.

11:00 (ísl) - Flugvöllurinn í Singpore
Þar sem unnustan er sennilega komin á æfinu ákveð ég að senda henni sms í gegnum netið. Það er örlítið skrítið að það sé komið kvöld og ég sé nýkominn á fætur. Ég skelli mér samt í betri stofu British Airways og fæ mér salat og gos.

15:00 (ísl) - yfir Norður-Ástralíu
Það eru tæpir fjórir tímar í lendingu í Melbourne og ég sit og pikka á tölvuna. Nautakjöt með hrísgrjónum og græmeti bragðaðist ágætlega með áströlsku rauðvíni. Pistasísusúkkulaðimyntukakan var líka alveg ágæt og annað glas af rauðvíni fylgdi henni niður meltingarveginn. Það situr enginn við hliðina á mér og ég er staðráðinn í að ná kríu þó ég sleppi kannski svefnpillu í þetta sinn. Það eru nefnilega bara 2 tímar í morgunmat!

20:00 (ísl)- Melbourne, Ástralía
Ég sit í Lobbíinu á íbúðahótelinu sem búið er að bóka fyrir mig. Klukkan er 6 að morgni á sunnudegi og 28 klukkustunda ferðalag er að baki. Mér tókst að sofa í tvo tíma í síðasta fluginu og eftir morgunmatinn komst ég að því að ég var búinn að missa vegabréfið mitt ofan í sætið/rúmið í vélinni. Það var ekki fyrr en eftir lendingu að ég fann passann og eftir að hafa sótt töskurnar og hringt í unnustuna (sem er með vinkonur í slípóver) fór ég í sérstaka sérstaka röð fyrir fólk sem flytur með sér vafasaman farangur inn í landið. Ég tók nefnilega golfskóna með mér og þar sem þær gætu borið með sér hættulegan sýktan íslenskan jarðveg af Vatnsleysuströndinni þá þurfti ég að taka þá upp úr töskunni. Ég slapp við allar meiri háttar sóttvarnaraðgerðir og þegar ég var kominn í gegnum tollinn beið eftir mér maður sem ók mér á íbúðahótelið. Þar sit ég núna, ekki alveg ánægður, vegna þess að næturvörðurinn er ekki með neinar upplýsingar um komu mína hingað. Ég þarf að bíða eftir að fólk úr móttökunni komi en það er von á því von bráðar.

Sunnudagur:

2:46 (ísl)  - Melbourne, Ástralía
Þá lýkur þessari ferðasögu. Ég er kominn inn á íbúð 211 á 21. hæð og þarf nú að einbeita mér að því að snúa við sólarhringnum.


Slepptu Íslandi í grafíkinni!

Frábær árangur og frábær frammistaða hjá okkar fólki í Belgrad. Við eigum bara ekki séns með svona fáa Íslendinga í útlöndum. Íslendingarnir í Danmörku þurfa að greiða háan símareikning næst. Merkilegast var þó að sjá að Ísland var ekki inn á kortinu þegar grafíkin fyrir stigagjöfina var birt sýndist mér.
mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þunglyndi í gleðibankanum!

Osmin og Pedrillo"Tíminn líður hratt á gervihnattaöld" sungu fyrstu íslensku eurovisionvíkingarnir um árið. Nú styttist í keppnina einu sinni enn og kannski eigum við loksins tækifæri á að komast í lokaumferðina eftir að reglum um forkeppnina var breytt. Mín skoðun er sú að markmiðið með þátttöku okkar sé ekki endilega að vinna heldur að hafa vandaða forkeppni á Íslandi þar sem besta lagið (mjög huglægt) sigri en ekki endilega það lag sem við teljum að eigi mesta möguleika úti í hinum stóra heimi. Forkeppnin í ár var óttalega langdregin með öllum þessum endurtekningum en lögin sjálf voru fín þó ólík væru. Þannig á það líka að vera. Áfram Ísland!

Tíminn líður hins vegar ekkert sérstaklega hratt hérna í La Coruna. Æfingar ganga ágætlega en þegar maður þekkir bæði hlutverkið og uppfærsluna vel þá er 3ja vikna æfingatími einfaldlega of langur. Ég er auðvitað ekkert að kvarta neitt en svona er þetta bara og ég reyni að drepa tímann milli æfinga með bloggskrifum og búðarrápi en eins og trúir lesendur síðunnar vita þá eiga veðurguðirnir á þessum slóðum við tímabundið þunglyndi að etja og því lítið annað að gera en vera innandyra.

En það eru fleiri en veðurguðirnir sem eiga erfitt. Í gær tók ég leigubíl á leið minni í stutta innkaupaferð. Á 5 mínutuna kafla heyrði ég öll þau skammaryrði sem spænskan hefur upp á að bjóða því geðvondur bílstjórinn hrópaði og kallaði að minnsta tilefni. Einn ók of hægt, annar lagði skakkt, sá þriðji gaf ekki stefnuljós. Ég var skíthræddur um að það yrði hraunað yfir mig líka ef ég yrði ekki nógu fljótur að borga þannig að þegar komið var á áfangastað greiddi ég í hvelli og stökk út úr bílnum.

"Þú skalt syngja lítið lag um lífsgleðina sjálfa í brjósti þér!"


Formúlan að góðum hvítasunnudegi

Torre de HerculesÁ grámyglulegum hvítasunnudegi ligg ég upp á hótelherbergi og horfi á kappakstur. Spennandi upplýsingar um áætlaða bensíntöku í þjónustustoppi blandast gelti spænskra íþróttafréttamanna sem æsast mjög þegar bíll í fjórtánda sæti nálgast næsta bíl á undan. Ég læt mér í léttu rúmi liggja enda enginn Íslendingur í Formúlu 1, ekki ennþá alla vega.

Í dag er engin æfing og ég ætlaði að nota daginn til að kíkja betur á bæinn. Veðurguðirnir eru hins vegar á öðru máli og þar sem ég er ný stíginn upp úr veikindum ætla ég ekki út í votviðrið. Ég er ekki ennþá farinn að nota sumarfötin sem ég tók með mér en vonandi eru hlýrri tímar framundan. Nálægðin við Atlantshafið gerir það að verkum að veðurfarið minnir töluvert á heimahagana.

Ég fór t.a.m. upp að Herkúlesarvitanum fyrir 3 dögum síðan í alveg ágætis veðri. Ég notaði tækifærið og fór í örlitla heilsurækt í leiðinni en til þess að komast upp vitann þarf að ganga 242 tröppur sem ég og gerði. Þaðan var útsýnið fallegt (tók nokkrar myndir
http://flickr.com/photos/bjarnithor ) en sjávarilmurinn, hafgolan og fuglagargið fyllti mig heimþrá.

Nú er kappakstrinum lokið með sigri rauða liðins. Það hlýtur að vera ótrúlega mikið bensín sem fer til einskis í kappakstri sem þessum. Væri ekki nær að keppa í kassabílaakstri þar sem hvert lið hefði tvo til að ýta hverju sinni? Þetta væri hin besta skemmtun og mikil heilsubót auk þess sem umhverfinu væri sýnd töluvert meiri virðing en nú er gert.

Hver bíll væri þá ekki 800 hestöfl heldur einungis 4 jafnfljótir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband